150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:31]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni enn og aftur fyrir ágætisandsvar. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að koma inn á þetta mál. Ég vil rifja upp eitt mál, hv. þingmaður, í þessu samhengi og í þeirri vinnu sem við höfum verið að vinna í fjárlaganefnd þegar var verið að óska eftir tillögum frá minni hlutanum. Ég kom með tillögu í fjárlaganefnd um sérstaka viðbótargreiðslu, álagsgreiðslu til heilbrigðisstarfsmanna. Tillögunni var tekið fálega í fjárlaganefnd, fékk sáralitla eða enga umræðu. Þetta var í aðgerðapakka eitt, ég flutti breytingartillögu um þetta og hún var felld í þinginu. Síðan gerist það að í aðgerðapakka tvö kemur tillaga frá ríkisstjórnarflokkunum um sérstaka álagsgreiðslu til heilbrigðisstarfsfólks, þannig að þeir gerðu bara tillöguna mína að sinni. Ég var að sjálfsögðu ánægður með það. En þetta eru náttúrlega alveg ótrúleg vinnubrögð. En svona hefur þetta gengið fyrir sig og við þurfum að breyta þessu. Það er bara ósköp einfalt.