150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjáraukalög 2020.

841. mál
[11:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við ræðum nú fjáraukann og mig langar að beina spurningum til hæstv. fjármálaráðherra. Það sem mér finnst eiginlega alltaf vanta í umræðuna eru málefni aldraðra og ég er eiginlega að bíða eftir að heyra af því hvort þau mál séu ekki á hans borði. Eiga þeir ekkert fá bætur vegna Covid? Eru allir aldraðir svo vel staddir að þeir þurfi ekki á neinni hjálp að halda? Er eðlilegt og sjálfsagt að ákveðinn hópur eldri borgara þurfi jafnvel að leysa út lyfin sín á raðgreiðslum? Er eitthvað inni á borði hæstv. ráðherra um að gera eitthvað fyrir aldraða sem verst eru staddir? Hérna erum við að dæla út peningum og hjálpa til og aðstoða við að segja upp fólki í vinnu og annað. Það virðast vera til nægir peningar til að dæla út en það virðast ekki vera til peningar til að hjálpa öldruðum sem eru illa staddir.