150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

843. mál
[14:27]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er eingöngu fyrir árið 2020. Ástæðan fyrir því að við erum með sérlánanefnd fyrir þetta í stað þess að það fari í gegnum stjórn NSA er sú að NSA er sjálfstæður fjárfestir. Þar geta verið mögulegir hagsmunaárekstrar ef stjórn NSA er að fjárfesta í viðkomandi fyrirtæki eða annað slíkt. Við erum að reyna að hafa skilyrðin eins hlutlæg og hægt er þannig að ekki sé hætta á huglægu mati nefndarinnar á því hverjir fá lán og hverjir ekki. Skilyrðin þurfa að vera hlutlæg þannig að hafi fyrirtæki fengið lán frá fjárfesti sínum ákveði nefndin — sé þetta fyrirtæki sem hafi fengið styrk úr Tækniþróunarsjóði eða endurgreiðslu á rannsóknar- og þróunarkostnaði, þannig að um sé að ræða skilgreint nýsköpunarfyrirtæki — sömu upphæð, þó ýmist með lágmarki, til þess að koma einmitt í veg fyrir mögulega misnotkun, eða hámarki. Við vitum ekki hversu mikill áhugi verður á því að fá svona lán. Lánin eru á markaðskjörum þannig að þau eru ekki ríkisstuðningur. Við erum bara að lána á markaðskjörum. Það er í raun ekki sérstakur hvati til að fá mótframlagslán þannig að við erum að teikna það þannig upp að þau séu í raun fyrir fyrirtæki sem eru í einhvers konar neyð vegna þess að lánin eru ekki það hagstæð að það sé hvati í sjálfu sér, ekki nema bara fyrir þá sem eru í þannig þörf. Og sömuleiðis ef þeir geta ekki greitt þá eru þeir komnir með eignarhald ríkisins inn í fyrirtæki sem er ekki eitthvað sem fyrirtækin væru almennt að kalla eftir undir venjulegum kringumstæðum. Við erum að reyna að teikna þetta þannig upp að ekki sé um mikið huglægt mat nefndarinnar að ræða. En einhver þarf að fara yfir það. Það getur ekki verið stjórnin vegna þess að NSA er sjálfstæður fjárfestir, og það má ekki vera teiknað þannig upp að það sé einhver hvati til að sækja um af því að ríkið sé bara þarna með pening heldur sé þetta fyrir fyrirtæki sem eru í raunverulegum vanda, þurfa á því að halda og þurfa að greiða til baka og geti þau það ekki þá eru þetta breytanleg skuldabréf.