150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[15:08]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að nýta þetta tækifæri til að víkja að nokkrum atriðum sem ég ræddi við 1. umr. málsins og ég fékk ekki svör við í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Formaður nefndarinnar getur kannski sett mig inn í þau mál. Í fyrsta lagi erum við að tala um þetta mál en það er ekki ótengt frumvarpi um hlutabótaleiðina. Það er ekki bara vegna þess að það er innbyggður hvati í kerfið, eins og það gæti orðið að þessum málum samþykktum, að flytja fólk úr hlutabótaleiðinni yfir í það að vera sagt upp og fyrirtækið fái stuðning á uppsagnarfresti við að greiða þann kostnað, heldur var þetta líka eitthvað sem hæstv. fjármálaráðherra sagði í flutningsræðu að þyrfti að skoða í samhengi. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig það samhengi á milli málanna tveggja, sem eru jú í tveimur ólíkum nefndum, var tryggt. Hvernig náði nefndin að fara eftir þessari leiðsögn ráðherrans varðandi málið?

Hitt sem mig langar að spyrja að í fyrra andsvari er varðandi vinnuframlag fólks sem sagt er upp með þessu úrræði. Nú er það svo að venjulega er hægt að krefja fólk um vinnuframlag á uppsagnarfresti en þetta er óvanalegt úrræði og miðað við t.d. orð hæstv. ráðherra, um að þetta sé úrræði til að hjálpa fyrirtækjum að leggjast í híði, þá þætti manni kannski eðlilegt að því fylgdi að fólk þyrfti ekki að skila vinnuframlagi á þessum undarlega uppsagnarfresti. Er reyndin sú eða verður fólki gert að vinna út uppsagnarfrestinn sem ríkið styrkir fyrirtækin um?