150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[15:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Aftur að einu grundvallaratriði. Menn verða að hafa í huga að það frumvarp sem við erum að fjalla um hér nær eingöngu til þeirra fyrirtækja sem hafa orðið fyrir mestu skakkaföllunum, 75% tekjufalli. Við erum annars vegar að reyna að gefa þeim tækifæri til þess að komast í gegnum þetta en um leið að tryggja réttindi launafólks. Það er hins vegar fullt af öðrum fyrirtækjum sem kunna að geta nýtt sér hlutabótaleiðina en koma ekki til greina og uppfylla ekki skilyrði um tekjufallið. Það eitt og sér er auðvitað grundvallaratriði. Hins vegar hef ég sagt, og ég sagði það hér áðan, að ég myndi, þegar ég sé hvaða breytingartillögur verða gerðar við hlutabótaúrræðið, taka til máls um þær. Ég hef áhyggjur af því og það eru raunverulegar áhyggjur að í frumvarpinu um hlutabótaúrræðið, ekki vegna þessa frumvarps, sé innbyggður hvati til þess að fyrirtæki taki ákvörðun um að velja fremur að segja upp starfsmönnum heldur en að hafa það áfram í hlutabótastarfi. Það eru áhyggjur mínar af því frumvarpi og hefur ekkert með þetta frumvarp að gera.

Varðandi vinnuframlag á uppsagnarfresti er ég sjálfur á því að það eigi að vera samkomulag milli vinnuveitenda og viðkomandi starfsmanns. Oft er það þannig að starfsmaðurinn vill fá að vinna á uppsagnarfresti og ég hygg að verkalýðshreyfingin sé algjörlega skýr í því að það eigi ekki að vera ákvæði um að horfa eigi til þess að enginn þurfi að vinna á uppsagnarfresti vegna þess að þá er verið að nálgast grunnréttindi og skyldur á vinnumarkaði og það er mjög viðkvæmt. Við erum ekki að fara að snerta við þeim, hv. þingmaður.