150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[15:14]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að ég á stundum við þann vanda að etja að ég tala ekki nógu skýrt. Ég var að halda því fram hér áðan að það væri ekki samhengi á milli þessara tveggja frumvarpa. (Gripið fram í.) Nei. Ég var að tala um að ég hefði áhyggjur af því að það frumvarp sem verður hér til umræðu líklegast á morgun, ef mínar upplýsingar eru réttar, sé með þeim hætti að það sé innbyggður hvati í því frumvarpi. Þetta frumvarp fjallar hins vegar um verst stöddu fyrirtækin, 75% tekjufall. Við erum að reyna að gefa fyrirtækjunum í fyrsta lagi tækifæri til að lifa það af, mörg munu ekki gera það, en í versta falli erum við að reyna þá að tryggja réttindi starfsmanna. Ég sagði líka áðan að samkomulag yrði að vera milli viðkomandi starfsmanna og fyrirtækis eða atvinnurekanda um það hvort ætlast væri til vinnuframlags á uppsagnarfresti. Það að löggjafinn fari inn í vinnulöggjöfina með þeim hætti í einhverjum neyðaraðgerðum væri í mínum huga varhugavert og þetta kom lítið sem ekkert til umræðu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd nema held ég bara í örfáar mínútur.