150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:29]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ef fyrirtæki sem hefur verkefni fyrir starfsfólk sitt kýs samt sem áður að segja því upp, fá þrjá mánuði fría í uppsagnarfrest frá ríkinu og ráða síðan sömu starfsmenn aftur, kannski á verri kjörum en áður var — þá er ég að vísa í launakjör þeirra en ekki önnur, kjarasamningsbundin ákvæði — er þá eitthvað í frumvarpinu sem kemur í veg fyrir það? Ef við sjáum fyrir okkur fyrirtækjasamstæður þar sem sums staðar hefur vissulega orðið samdráttur í rekstri upp á 75% en annars staðar er nægt fé til þess að viðhalda starfseminni, er þá eitthvað í frumvarpinu sem kemur í veg fyrir að fyrirtæki ákveði að segja upp starfsmönnum, noti samt starfskrafta þeirra í þrjá mánuði á meðan ríkið greiðir fyrir það uppsagnarfrest og ráði svo bara það sama starfsfólk aftur eða nýtt starfsfólk að því loknu? Mér finnst þetta ekkert sérlega teoretískt miðað við að fyrirtæki voru að nota hlutabótaleiðina til þess að segja fólki upp. Ég velti því virkilega fyrir mér hvort eitthvað komi í veg fyrir að fyrirtæki, sem vissulega hefur orðið fyrir 75% tekjusamdrætti á ákveðnu tímabili, hafi samt sem áður áframhaldandi verkefni nú þegar búið er að létta á samkomutakmörkunum, kjósi að reka starfsmenn sína, fái þrjá fría verkefnamánuði frá ríkinu og ráði starfsmennina síðan aftur. Er eitthvað í þessu frumvarpi sem kemur í veg fyrir það?