150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:32]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Hv. þingmaður spyr hvort það sé eitthvað sem fyrirbyggi það að menn reyni eftir atvikum að sækja sér fé úr ríkissjóði með óviðurkvæmilegum aðferðum svipað og kom upp í hlutabótaleiðinni. Það eru sett skilyrði í frumvarpinu fyrir því hvernig menn komast inn í úrræðið en það er með þetta úrræði eins og önnur samfélagsleg verkefni sem stjórnvöld setja upp til að reyna að bregðast við vanda, að ekki er hægt að setja fyrir allan leka. Við verðum alltaf að einhverju leyti að treysta á að launagreiðendur, atvinnurekendur, sýni þá samfélagslegu ábyrgð að nota þau úrræði sem þeir þurfa á að halda en sæki sér ekki fé af því að einhver möguleiki er á því. Það er eitthvað sem eftirlitsstofnanir munu væntanlega fara yfir. Má í því sambandi benda á að Ríkisendurskoðun hefur þegar gert skýrslu um notkun á hlutabótaleiðinni. Þar koma fram mjög mikilvægar ábendingar sem við getum vonandi nýtt okkur í áframhaldandi vinnu.