150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:44]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið. Já, það kann að vera að munurinn á tilfinningu minni fyrir tíma og hv. þm. Óla Björns Kárasonar, formanns efnahags- og viðskiptanefndar, liggi í því að spurningar mínar til gesta sneru að nokkru leyti að þessum atriðum. Að því leyti til var mín upplifun sú að nokkuð af þeim tíma sem ég varði á þessum nefndarfundum til ræðu og samtala fór í þetta.

Ég er sammála hv. þingmanni, auðvitað myndi það að einhverju leyti styrkja réttindi launafólks að setja slíkt ákvæði inn sem hann nefnir, þ.e. einhliða frelsi launamanns til að velja á milli þess hvort hann vinnur í uppsagnarfresti eða geri það ekki. En ég tel samt ómögulegt að setja fram slíkt ákvæði á þessum tímapunkti án umfangsmikils samráðs við verkalýðshreyfinguna. Þó að ég vilji ekki fara að ræða í smáatriðum samtöl sem áttu sér stað á nefndarfundum, verð ég a.m.k. að leyfa mér að lýsa þeirri upplifun minni af þeim samtölum þannig að ekki hafi þótt tilefni til að breyta því á þessu stigi málsins vegna frumvarpsins þó svo að menn hafi alveg verið til í að ræða það að breyta þessum réttindum í samhengi við réttindi launafólks almennt.