150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[16:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp um að ákvarða atvinnurekendum stuðning til greiðslu launa í uppsagnarfresti. Þetta er kannski farið að hljóma eins og biluð plata hjá mér — ég held að ég hafi nefnt þetta fyrst í ræðustól 30. apríl, áður en frumvarpið hafði litið dagsins ljós en eftir að það hafði verið kynnt á blaðamannafundi — en í þessari leið er hvati, sérstaklega í samspilinu við breytta og framlengda hlutabótaleið, til þess að fólki verði sagt upp, sérstaklega fólki sem verið hefur á hlutabótaleiðinni.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson sagði að ríkið væri ekki að hvetja til uppsagna. Ég get svo sem alveg tekið undir það af því að hvatar þurfa ekkert endilega að vera þannig að ríkið sé aktíft að hvetja til einhvers. Hins vegar býr samspilið á milli þessara tveggja mála sérstaklega til þann kokteil að það er fjárhagslegur og rekstrarlegur hvati til þess að færa fólk af hlutabótaleiðinni, þar sem atvinnurekandi þarf að greiða bráðum helming launa og fær helmingsvinnuframlag á móti, yfir í það að segja því upp og fá ríkisstyrk fyrir 85% launa og geta þegið 100% vinnuframlag á móti.

Þetta úrræði kemur til af þeirri nauðsyn að mörg fyrirtæki standa mjög höllum fæti vegna Covid-krísunnar. Ég held að það dyljist engum. En skilyrði um rekstrarhæfi þurfa að vera miklum mun skýrari en þau eru í þessu frumvarpi. Væntanlega eru flest fyrirtæki sem kljást við 75% tekjufall á þessu tímabili í miklum vandræðum, en þar inni á milli munu líka vera fyrirtæki með öflugan rekstur og traustan efnahag sem gætu komist í gegnum þetta ástand án þess að fá til þess sérstakan styrk upp á allt að 3 milljónum á hvern starfsmann sem þau segja upp. Þetta mun væntanlega koma í ljós fljótlega eftir að úrræðið fer í gang þar sem Skatturinn mun birta lista yfir öll þau fyrirtæki sem nýta sér uppsagnarstyrkina. Án þess að ég ætli að setjast í spámannsstól held ég að við megum eiga von á fréttum í hvert sinn sem sá listi er uppfærður þar sem bent verði á þetta eða hitt fyrirtækið sem að mati blaðamanna eða einhverra annarra sé of sterkt eða stöndugt til að réttlætanlegt sé að það nýti þetta úrræði. En hafi það uppfyllt þau lágu skilyrði sem í frumvarpinu er, er löggjafinn búinn að gefa grænt ljós á það. Það verður alla vega áhugaverð umræða þegar fjölmiðlar fara að fjalla um málið.

Hér höfum við aðeins rætt um réttindi launafólks og hvort einhvern veginn sé hægt að taka á þeirri stöðu að samkvæmt gildandi lögum er það samkomulag milli launafólks og atvinnurekanda hvort fólk vinni út uppsagnarfrest. Eins og áður sagði erum við hér að tala um aðgerðir upp á 27 milljarða sem hafa munu áhrif á stöðu og rétt vinnandi fólks, og skiljanlega, af því að þarna býðst fyrirtækjum sem uppfylla einföld skilyrði, því sem næst ókeypis vinnuframlag með ríkisstyrk. En af hverju getur þingið, löggjafinn, ekki sýnt á sama tíma vilja til að styrkja rétt launafólks, t.d. með því að auka frelsi þess til að velja sjálft en ekki í samráði við atvinnurekandann, hvort það vinni út uppsagnarfrest? Það myndi líka vinna gegn þeim möguleikum á misnotkun, þeim freistnivanda sem er í frumvarpinu, að ef atvinnurekandi getur ekki gengið að því vísu að hann eigi möguleika á fullu vinnuframlagi fólks í uppsagnarfresti sé hann kannski ekki jafn viljugur til að fara þá leið.

Það er rétt að nefna að þó að þau verkalýðsfélög sem skiluðu inn umsögnum hafi kveðið missterkt að orði þá benda þau öll á 11. gr. frumvarpsins, um réttindi launamanns, og nauðsyn þess að kveða skýrar á um réttindi fólks. Við því er ekki brugðist. Alþýðusambandið leggur áherslu á að fyrirtæki eigi að mæta óskum launafólks í uppsagnarfresti um töku orlofs og úrræði til að auka hæfni sína eða sækja menntun. BSRB gerir ýmsar athugasemdir við greinina og bendir eins og hin félögin á að það sé óskýrt hvað endurráðningarákvæði greinarinnar feli í raun í sér, hvernig það eigi að útfærast. Enn skýrast kemst að orði Bandalag háskólamanna sem segir, með leyfi forseta:

„Það getur ekki talist eðlilegt að fyrirtæki geti verið með starfsfólk í 100% starfshlutfalli og nýtt starfskrafta þeirra að fullu, en einungis borgað um 15% af launakostnaði.“

Þessu er ég sammála. En hvað gerum við þá?

Fyrir þinginu liggja tvö minnihlutaálit sem mig langar að nefna sérstaklega því að í þeim er nálgun á málið frá ólíkum sjónarhóli. Ef við gefum okkur að við verðum að fara þessa leið þá eru breytingartillögur 1. minni hluta, hv. þm. Oddnýjar Harðardóttur, leið til að bæta frumvarp sem ekki er nógu gott. Þar er lagt til að herða skilyrði fyrir því að njóta þessa ríkisstyrks þannig að það sé alveg á hreinu að fjármögnun fyrirtækjanna geti ekki verið í gegnum skattaskjól, þau greiði stjórnendum ekki ofurlaun til samræmis við systurfrumvarp þessa frumvarps um framlengingu hlutabótaleiðarinnar, og að þau setji sér markmið í loftslagsmálum. Þetta síðasta mætti segja að sé nokkuð sem fyrirtæki ættu að gera ef þau eiga yfir höfuð að teljast rekstrarhæf á næstu árum.

Hin leiðin sem farin er í minnihlutaáliti er í áliti 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Smára McCarthys, sem bendir á aðrar leiðir, sérsniðnar leiðir sem taka á þeim vanda sem við blasir með miklu markvissari hætti, sem standa vörð um stöðu launafólks, sem hjálpa fyrirtækjum sem standa höllum fæti án þess að leggja bara á hlaðborðið 27 milljarða sem fyrirtæki geta sótt í ef þau hafa upplifað tekjufall óháð því hvort undirliggjandi rekstur og efnahagur er traustur og öflugur.

En hvað gerist síðan þegar gildistíma þessa úrræðis lýkur? Það birtist frétt um það í Morgunblaðinu í gær, þar sem talað er við sérfræðing Vinnumálastofnunar, að greining á fyrstu 8.000 einstaklingunum sem hættu á hlutabótaleiðinni sýni að helmingur snúi aftur til vinnu en að hinum helmingnum sé sagt upp að fullu. Síðan megi áætla að á næstu mánuðum muni heldur hærra hlutfalli vera sagt upp að fullu. Þannig að það sem við þyrftum að segja í dag er ekki hvernig fyrirtæki geti rekið fólk í sumar en nýtt vinnukrafta þess svona upp á von og óvon um að fyrirtækin geti ráðið það aftur, heldur: Hvar ætlum við og hvar ætlar ríkisstjórnin að búa til hvata fyrir atvinnulífið til að ráða starfsfólk frekar en að reka það?