150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[17:16]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir hennar góðu ræðu. Ég held ég geti sagt það með sanni, hvort sem ég væri í stjórn eða stjórnarandstöðu, að ég get tekið undir hvert einasta orð sem hún sagði. Ég er algjörlega sammála því að það skýtur svolítið skökku við að talað sé um að reyna að styrkja ráðningarsambandið milli launþegans og vinnuveitandans á sama tíma og við erum nú að hvetja til þess að launþeganum sé sagt upp störfum og íslenskur almenningur eigi að borga brúsann.

Mig langar í þessu sambandi að taka upp boltann þar sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir skildi hann eftir, með niðurlagi í ræðu sinni þar sem hún hvatti okkur til þess að taka undir minnihlutaálit Oddnýjar G. Harðardóttur sem lýtur að því að reyna að styrkja það að íslenskir skattgreiðendur séu ekki eina ferðina enn að moka peningum í aðila sem hingað til hafa ekki haft neinn hug á því, vilja eða neitt, að greiða í okkar sameiginlegu sjóði; í aðila, fyrirtæki, sem fela sig í skattaskjólum.

Mig langar af því tilefni að vísa til þess að 24. maí sl. kom ágætur fyrrverandi ríkisskattstjóri, Indriði H. Þorláksson, fyrir velferðarnefnd Alþingis. Hann var inntur eftir því hvernig hugsanlegt væri að girða fyrir það að fyrirtæki sem væri að nýta sér þessa leið væru í raun í skattaskjóli. Það er ýmislegt sem við höfum rætt í því tilviki, t.d. eins og móðurfélag sem er einhvers staðar og er með dótturfélag hér; allir peningarnir fara úr landi, fyrirtækið borgar ekki krónu hingað. Við þekkjum svoleiðis dæmi, fullt af þeim. En erum við að taka á því hér? Nei, það erum við ekki að gera.

Þetta minnir mig óneitanlega á höggið sem lenti á heimili landsmanna í síðasta efnahagshruni, 2008, þegar á milli 12.000 og 15.000 fjölskyldur misstu heimili sitt, þegar því var lofað að reisa skjaldborg utan um fjölskyldurnar í landinu en í staðinn var reist gjaldborg utan um þessar fjölskyldur og þær hafa margar hverjar ekki beðið þess bætur enn. En það var hins vegar reist skjaldborg utan um peningaöflin í landinu og elítuna. Ég stend ekki hér til að segja að hér séu ekki fyrirtæki sem eru í stórkostlegum vanda sem hafa í raun algjörlega misst fótanna. Ég mun heldur ekki segja að við eigum skilyrðislaust að hjálpa þeim. En ég vil skilyrðislaust að það sé algerlega á hreinu að okkur ber skylda til þess að koma í veg fyrir að leynt og ljóst sé verið að reyna að svindla sér inn í eitthvað sem hér er gengið fram með af góðum vilja til að hjálpa fyrirtækjum sem virkilega eiga undir högg að sækja. Það eru allir, hver einasti, sem verða fyrir einhverjum áföllum en það er líka mismunandi hvernig fyrirtækin eru stödd.

Ég ætla að vísa hér, með leyfi forseta, í töflu sem ég sá um arðgreiðslur eins af okkar verðmætustu og öflugustu fyrirtækjum í landinu sem við þekkjum öll og heitir Bláa lónið. Það varð náttúrlega að skella í lás, einn, tveir og þrír, því að allir ferðamennirnir hurfu og það þekkjum við líka. Við skulum taka eftir því hvernig smástígandi var í hagnaðinum og góðum rekstri og hvernig ferðamennirnir aðstoðuðu við að fyrirtækið blómstraði sem aldrei fyrr. Árið 2013 greiddu eigendur sér um 714 milljónir í arð. Árið 2014 voru það orðnar 929 milljónir og árið 2015 1,170 milljarðar. Árið 2016 var það komið í rúmlega 1,3 milljarða. Árið 2017 eru milljarðarnir orðnir 1,5. Árið 2018 eru milljarðarnir orðnir rúmlega 2 og í fyrra, árið 2019, greiddi þetta fyrirtæki sér út ríflega 4 milljarða í arð. Á þessum stutta tíma hefur umrætt fyrirtæki því greitt sér samtals um 12,3 milljarða í arð. Þetta er fyrirtæki sem varð með þeim fyrstu til að nýta sér hlutabótaleiðina. Hugsa sér! Það er talað um að íslenskir skattgreiðendur greiði með þessu fyrirtæki um 200 millj. kr. á mánuði. Er einhver kominn til með að segja að fyrirtæki sem getur greitt sér aðra eins arðgreiðslu, og gengið eins vel og raun ber vitni, eigi ekkert eigið fé, að það sé hreinlega á hausnum og geti ekki tekið ákveðnum skelli, geti ekki sýnt almenningi og okkur þá virðingu að vera ekki að nýta sér svona björgunaraðgerðir? Ég nefni þetta fyrirtæki sem dæmi, eitt af mörgum fleiri fyrirtækjum sem ég ætla ekki að tíunda hér, en sem við höfum fengið að líta eftir að við fengum loksins birtan listann yfir þau fyrirtæki sem eru að nýta sér hlutabótaleiðina. Við erum að viðurkenna siðleysið með því að girða ekki fyrir svona lagað, með því að þeir greiði sem geta, það er bara þannig. Þetta á ekki að vera nein ölmusa eins og hér sé verið að skrá sig í einhverjar sumarbúðir. Þeir eiga að greiða sem geta og við eigum að hjálpa þeim sem þurfa. Það ætti að vera grundvallaratriði.

Á hvaða vegferð er ríkisstjórnin? Henni finnst í lagi að segja: Jú, jú, það verður sennilega halli hjá okkur á næstu tveim árum, upp á um 500 milljarða kr. Þið, ágætu skattgreiðendur, eins og venjulega, beygið bökin meira, þið fáið að borga brúsann. Þetta er ósanngjarnt. Meira að segja þeir sem aldrei hafa getað keypt sig inn í Bláa lónið eiga að borga þennan brúsa.

Ég ætla að fá að vísa í Indriða H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóra. Hann kom með tvær tillögur fyrir velferðarnefnd, um það hvernig hann sjái fyrir sér að við getum girt fyrir það að fyrirtæki sem hafa verið með fjármuni sína í skattaskjólum nýti sér þær björgunaraðgerðir sem íslenskur almenningur er nú að taka í fangið til að reyna að hjálpa. Það er eiginlega forkastanlegt að við skulum heykjast á því eina ferðina enn að taka á svona málum, að við skulum bjóða fólkinu okkar upp á þetta. Með leyfi forseta, ef ég finn þetta einhvern tíma, ég er ekki sérlega góð á pappírinn — jú, hann talar hér um að draga úr því að aðilar sem nota skattaskjól í starfsemi sinni geti flutt hagnað af starfseminni úr landi án þess að greiða hér skatta eins og skylt er. Um muninn á þeim hugmyndum sem hann er að leggja fram segir hann:

„… tillaga A er byggð á þeirri afstöðu, sem verið hefur að styrkjast í fjölþjóðlegu samstarfi, að skattaskjól séu sem slík skaðleg fyrir þjóðir heims frá efnahagslegu og félagslegu sjónarmiði, ræni lönd skatttekjum, séu hemill á efnahagslegar framfarir og auki misskiptingu eigna og tekna.“

Virðulegur forseti. Kannast einhver við þetta? Kannast einhver við misskiptingu eigna og tekna í okkar frábæra landi?

Og áfram segir:

„Tilgangur þeirra sem þau nota sé sá einn að komast undan því að greiða sinn hluta af samfélagslegri starfsemi. Skattaskjól sem slík eigi því að útiloka frá samskiptum á við önnur ríki og alþjóðasamfélagið. Tillaga A felur í sér að tengsl við lágskattasvæði ein sér, þ.e. að hafa búið til möguleika á tekjuflutningi þangað, nægi til þess að útiloka viðkomandi aðila frá stuðningi með fé úr sjóðum almennings sem þeir hafa sýnt að þeir vilji ekki greiða sinn hluta til.“

Hvers vegna á íslenskur almenningur að styðja við þá sem hafa sýnt að þeir vilja ekki greiða sinn hluta til samfélags okkar, í samneysluna? Mér finnst það á margan hátt ekki hafa verið undirbúið nógu vel, tekið nógu vel utan um það, hvernig bregðast eigi við þegar við verðum uppvís að því að illa hefur verið farið með almannafé og því misbeitt, þegar siðleysi hefur ráðið ríkjum. Við sjáum nú að yfir 50 fyrirtæki eru þegar að greiða til baka og það er okkur að kenna. Það er okkur að kenna að þau fyrirtæki nýttu sér þessa hlutabótaleið af því að við settum ekki nógu skýrar reglur.

Ég ætla að vísa hér í tillögu B. Þetta voru tvær tillögur sem ágætur fyrrverandi ríkisskattstjóri, Indriði H. Þorláksson, setti fram, en eins og allir vita hefur hann mjög mikla reynslu í skattamálum og alls konar málum. Hann segir:

„Tillaga B er frábrugðin að því leyti að með henni er gengið skemmra. Í henni er miðað við að til þess að öðlast rétt samkvæmt lögunum þurfi að liggja fyrir að viðkomandi félag hér á landi eða raunverulegur eigandi þess hafi ekki átt í fjárhagslegum samskiptum við aðila sem staðsettur er á lágskattasvæði síðastliðin þrjú ár. Formleg en óvirk tengsl af þessum toga hafi því ekki áhrif á rétt hans.

Í báðum tilvikum er gert ráð fyrir að framkvæmdin verði á grundvelli yfirlýsingar viðkomandi félags eða raunverulegs eiganda þess um að skilyrðin séu uppfyllt. Krefst það því ekki vinnu í stjórnsýslunni við að staðreyna réttinn fyrir fram í einstökum tilvikum. Verði viðkomandi síðar uppvís að rangri verður hann krafinn um endurgreiðslu og viðurlögum beitt sem þurfa að vera næg til fælingar.“

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra en það sem sérstaklega hefur brunnið á mér er að horfa fram á það að við ætlum ekki að girða fyrir að aðilar í skattaskjólum — sem jafnvel hafa komið samfélaginu á hliðina, sem eru jafnvel í dag uppvísir að því að vera með félög starfandi í Tortólu og á fleiri stöðum með alls konar hringamyndanir úr félagi í félag, við annað félag, til þess að reyna að fela slóðina — nýti sér þetta úrræði. Það er með ólíkindum ef við ætlum ekki að láta okkur segjast og læra af því að svona vinnubrögð viljum við ekki sjá. Við viljum ekki bjóða íslenskum almenningi upp á slíkt. Við erum hér að reyna að róa í sama báti. Allt samfélagið hefur staðið með okkur í þessari baráttu. Við höfum unnið bug á veirunni að sinni. Við erum búin að vinna fyrsta áfanga en við hefðum aldrei getað gert það nema með vilja alls samfélagsins, aldrei. Ef við hefðum ekki verið að hlýða Víði og hlustað á þá sem voru að ráða okkur heilt og benda okkur á það hvernig við ættum að forðast að sýkjast af þessari andstyggðarveiru trúi ég því að við værum ekki komin eins langt eins og við erum komin nú. Ég segi bara: Í ljósi þess að við ætlum að taka utan um fyrirtækin okkar, reyna að vernda störfin í landinu, reyna að hjálpa efnahagslífinu aftur í gang, reyna að snúa hjólunum aftur í gang, verðum við líka að virða þá sem eru með okkur í bátnum og eiga að borga brúsann. Við verðum að loka augunum algjörlega gagnvart því að hjálpa þeim sem í siðleysi eru að misnota þann björgunarhring sem við erum hér að kasta út.