150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[18:30]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta allsh.- og menntmn. (Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir) (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég byrja bara á sama stað og ég gerði rétt áðan, ég held að það sé einfaldlega þannig að um frumvarpið, eins og það lítur út í heild sinni, sé afstaðan jákvæð. Hitt er svo kannski bara lögfræði, hvort við viljum og ætlum að ganga alla leið hvað varðar það að ramma inn skilaboðin og hver meiningin er. Þá fari einfaldlega betur á því og sé skýrara að ramma þau markmið inn í ákvæðinu sjálfu. Það er munur á því að vera með almennar tilvísanir í greinargerð og því sem sett er í ákvæðið sjálft. En eftir stendur auðvitað líka að annars vegar er verið að fara þessa leið og svo er hin tillagan, það er verið að leggja til tvö veigamikil atriði, en það er að boða ákveðinn námsstyrk sem sé raunverulega þannig að það sé mánaðarleg greiðsla til handa stúdentum. Það eru kannski ekki síður stóru pólitísku skilaboðin og pólitíska markmiðið að stuðningur við stúdenta sé með þeim hætti og við háskólamenntun almennt séð að við séum að fara þá leið og færa okkur nær norræna módelinu hvað varðar sýn á gildi og vægi háskólamenntunar með því að leggja jafnframt til að stúdentum sé veittur styrkur til náms.