150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[18:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum í 2. umr. frumvarp til laga um Menntasjóð námsmanna. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir hefur nú þegar í þessari umræðu gert grein fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar og þeim breytingartillögum sem við leggjum til við frumvarpið. Ég er ein af þeim sem skrifa undir nefndarálit meiri hlutans. Ég ætla ekki að rekja allt efni þess í ræðu en vil hins vegar nota tíma minn til þess að gera grein fyrir og fjalla um nokkrar af þeim breytingartillögum sem meiri hluti allsherjar menntamálanefndar leggur til við 2. umr.

Markmiðið með frumvarpi um Menntasjóð námsmanna er m.a. að efla stuðning við námsmenn, hvetja til betri námsframvindu og búa til réttlátara og nútímalegra námslánakerfi. Það voru nokkur atriði sem við töldum að færi vel á að skerpa aðeins á til að ná þessum markmiðum enn frekar fram. Þar langar mig að byrja að fjalla um það sem má segja að gerist við lok þess að maður er með námslán. Það fjallar um gjaldfellingu námslána samkvæmt 20. gr. Við meðferð málsins var bent á það að þar væri um talsvert harkalega aðgerð að ræða eins og hún væri þar skrifuð inn. Við í meiri hlutanum og ég tel raunar nefndin öll, ég hef alla vega ekki heyrt neinn segja annað, vorum sammála þessu því að þó svo að við séum sammála því markmiði og þeirri forsendu sem er lögð til grundvallar í frumvarpinu, að lánþegi endurgreiði námslán sín fyrir 65 ára aldur, þá getur ýmislegt orðið til þess að það gangi ekki upp. Þess vegna sé mjög mikilvægt að hafi ekki tekist að greiða námslánið upp verði lánið ekki bara gjaldfellt heldur fari af stað einhver mekanismi og gengið verði frá því hvernig fólk sem hefur verið að greiða af námsláni sínu fram að því geti klárað það. Það verði meira að segja þannig ef sérstakar aðstæður eru, til að mynda vegna heilsufarslegra ástæðna, og það gengur ekki að greiða upp lánið geti sjóðstjórn að lokum afskrifað höfuðstól lánsins að hluta eða öllu leyti.

Þetta finnst okkur mikilvægt því að á sama tíma og það er mikilvægt að fólk standi í skilum með þau lán sem það tekur þarf líka að vera sanngirni í því og ef aðstæður fólks breytast sé hægt að mæta því.

Það má kannski segja að breytingar við 23. gr. lúti að hluta til sömu lögmálum. Í þeirri grein er fjallað um frestun á endurgreiðslu. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til frekari breytingar til þess að víkka enn frekar heimild stjórnar sjóðsins til að heimila undanþágu frá greiðslum þegar aðstæður kalla á það. Það geta auðvitað alls konar hlutir gerst í lífi fólks sem gera að verkum að það getur ekki greitt af námslánum sínum með þeim hætti sem upp var lagt, um lengri eða skemmri tíma og vonandi í flestum tilfellum bara skemmri tíma.

Ég held að þessar breytingar skipti gríðarlega miklu máli til þess að þetta kerfi virki til langrar framtíðar. Það er það sem við leggjum upp með þegar farið er í svona stóra kerfisbreytingu eins og hér er verið að gera á fyrirkomulagi námslánagreiðslna.

Það er talsvert af breytingum sem eru í bráðabirgðaákvæðum við frumvarpið. Flestar þeirra tengjast aðgerðum sem ríkisstjórnin fór í í tengslum við gerð kjarasamninga. Þær verða hér lögfestar sem bráðabirgðaákvæði í þessu frumvarpi. Þar er m.a. verið að fella niður ábyrgðir á námslánum teknum í tíð eldri lána og fjallað um skilyrði fyrir slíkri niðurfellingu auk þess sem verið er að gefa afslátt við uppgreiðslu eða innborgun á námslánin og lækka vexti á afborgunum á námslánum.

Það er ein breytingartillaga við bráðabirgðaákvæði í frumvarpi um Menntasjóð námsmanna sem við í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar leggjum til. Hún lýtur að því að segja má að forsendur hafi að sumu leyti breyst frá því að þetta frumvarp var lagt fram vegna heimsfaraldurs Covid og þeirra efnahagslegu afleiðinga sem því hafa fylgt. Atvinnuleysi hefur aukist og stjórnvöld eru að hvetja fólk til þess að fara í frekara nám og nýta þannig hinar slæmu afleiðingar atvinnuástandsins á jákvæðan hátt. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að fólk yfir 35 ára aldri greiði eingöngu fastar afborganir en ekki tekjutengdar afborganir. Við leggjum því til að til næstu þriggja ára geti einnig þeir sem eru 35 ára og eldri og fara í nám valið að vera með tekjutengda afborgun ef þeir kjósa svo. Ég held að þetta skipti máli vegna akkúrat þess samfélagsástands sem við erum með núna. Reynslan af því verði svo tekin til sérstakrar skoðunar að þremur árum liðnum þegar einnig er lagt til að heildarendurskoðun á þessum lögum og framkvæmd þeirra muni fara fram. Vegna þess að við erum hér að gera risastóra kerfisbreytingu þá held ég að það sé einnig mjög mikilvægt að farið verði yfir það hvernig hún hafi reynst. Því leggjum við í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar til að mennta- og menningarmálaráðherra kynni niðurstöður þeirrar heildarendurskoðunar ekki síðar en á haustþingi árið 2023.

Það eru ýmsar fleiri breytingartillögur sem við í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar leggjum til en ég hef hér farið í gegnum þær sem ég tel hvað veigamestar og ég held að geri þetta mál betra. Ég vonast til þess að eftir þessa umræðu verði þær samþykktar.