150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[18:53]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Ég ætla að byrja á því að endurtaka það sem flestir ræðumenn hafa klifað á. Gamla námslánakerfið, sem Menntasjóður námsmanna á að taka við af, er löngu úr sér gengið og algerlega hætt að þjóna tilgangi sínum. Það sést t.d. á því að á sama tíma og við höfum séð vöxt í fjölda háskólastúdenta ár eftir ár frá upphafi þessarar aldar hefur lánþegum hjá LÍN fækkað. Nokkur ár í röð hefur LÍN skilað afgangi af þeim fjárheimildum sem til sjóðsins hafa verið áætlaðar, sem fyrir mér þýðir bara að sjóðnum hefur mistekist. Hlutverk lánasjóðsins á að vera það að koma öllum þeim fjármunum sem fjárveitingavaldið veitir honum í þjónustu fyrir lánþega. Það er því ekki ofmælt að segja að þetta sé tímabær breyting.

Við megum líka aðeins velta því fyrir okkur hver áhrifin af þessu ástandi hafa verið. Vegna þess að LÍN hefur ekki virkað hafa stúdentar í allt of miklum mæli þurft að stóla á vinnu með námi, sem hætt er við að tefji námsframvindu. Við höfum rekið okkur á það núna að það hefur gert þá útsettari fyrir áhrifum af Covid-krísunni. Þegar hagkerfið fór að hægja á sér nú í vor voru stúdentar með þeim fyrstu sem misstu vinnuna með skóla, á kaffihúsum, eða hvað það var sem þau unnu við til að framfleyta sér. Þar sem framfærsla LÍN er ekki ætluð til að dekka árið heldur er alltaf reiknuð þannig að fólk sé níu mánuði í skóla og þrjá í vinnu að sumri, eru stúdentar jafnframt enn viðkvæmari gagnvart því að finna ekki störf í sumar. Þetta væri ekki jafn stórt vandamál ef LÍN hefði virkað eins og lánasjóður á síðustu árum.

Til marks um hvað þetta hefur verið langt ferðalag er þess skemmst að minnast að árið 2011 skipaði þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra nefnd til að endurskoða lög um LÍN. Síðan hafa nokkrar atrennur verið gerðar. Hvað sem okkur finnst um frumvarpið eða þær breytingartillögur sem í því eru er mjög gleðilegt að loksins sé verið að stíga skrefið til fulls og lögfesta betra kerfi. Þetta er skref í rétta átt. Það er margt til bóta í frumvarpinu og enn meira í breytingartillögunum, eins og fram hefur komið. En það má alveg velta því fyrir sér af hverju við stígum bara eitt skref en ljúkum ekki heildarendurskoðuninni.

Það er nefnilega dálítið óvenjulegt, sem birtist í breytingartillögum meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, að nefndin leggur til að heildarendurskoðuð lög sem þetta varða verði samþykkt og verði síðan sett í gegnum aðra heildarendurskoðun að þremur árum liðnum. Það sýnir okkur kannski hve verkefnið er viðamikið, að þinginu entist ekki þessi heili vetur, þótt undarlegur hafi verið síðustu vikurnar, til að klára málið þannig að það gæti staðið lengur en þrjú ár, ég segi kannski ekki alla tíð.

Við 1. umr. velti ég því upp hvort verið væri að auka stuðning, eða raða honum til. Mér sýnist á öllu að það sé frekar reyndin. Jú, verið er að bæta inn 14 milljörðum með bráðabirgðaákvæði, en að öðru leyti hefur frumvarpið verið samið út frá ákveðinni forskrift. Forsendurnar voru fjárveiting á svipuðum slóðum og verið hefur þannig að styrkhlutinn stefnir í að vera á bilinu 6–7 milljarðar en inngreiðslur í lánasjóðinn hafa verið áætlaðar 5–6 milljarðar, sem er, út frá ríkissjóði séð, ekki mikil breyting, og síðan er lánahlutanum ætlað að vera sjálfbær þannig að endurgreiðslur fyrri lánþega viðhaldi kerfi fyrir núverandi lánþega. Það er nokkuð sem þarf að endurskoða í næstu umferð. Það er kannski það góða við að hér sé verið að leggja til heildarendurskoðun að þremur árum liðnum. Ef við ætlum að vera með kerfi sem hvetur fólk til náms þá má það kosta eitthvað, eða það má það ekki bara heldur þarf það að kosta eitthvað.

Við höfum rætt dálítið félagslegt jöfnunarhlutverk sjóðsins og sérstaklega varðandi það hvernig sjóðurinn nýtist til að gera öllum kleift að sækja sér nám óháð tekjum og bakgrunni að öðru leyti. Það er mjög mikilvægt að standa vörð um það markmið. Það er kannski eitt atriði öðrum fremur sem haldið hefur verið á lofti varðandi það, það eru aldursmörkin sem dregin eru til að skilja á milli þess að fólk hafi val á milli tekjutengdra afborgana eða ekki, sem er við 35 ára aldur. Það er annað dæmi þar sem forsendan var í raun gefin. Þetta er bara strik sem ákveðið var að draga á fyrri stigum uppi í ráðuneyti og svo voru allar forsendur reiknaðar út frá því.

Í nefndaráliti meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar er þetta rætt í tengslum við konur sérstaklega, sem er mjög réttmætt. Við þekkjum öll sögurnar af konum sem eignast börn ungar og ljúka einhverri grunnmenntun, en þegar börnin fara að vaxa úr grasi finna þær hjá sér þörf og hafa loksins tækifæri til að sækja sér frekari menntun. Kerfið má ekki aftra þeim um of frá því þó að þær hafi náð því að verða 35 ára áður en þær komast í þá aðstöðu.

Þetta skiptir líka máli í enn víðara samhengi. Þetta skiptir máli varðandi fjórðu iðnbyltinguna, sem snýst um að ákveðnar atvinnugreinar munu mögulega hætta að vera til. Hvað á að gera við fólkið sem þar vinnur? Við viljum ekki að því sé stefnt inn í langtímaatvinnuleysi heldur þarf menntakerfið að geta gripið það fólk og hjálpað því að öðlast færni sem nýtist á öðrum sviðum. Það sama gildir raunar um þau umskipti sem fram undan eru vegna loftslagsbreytinga þar sem samfélagið allt þarf að breytast og heilu geirarnir gætu hætt að vera til. Þá þarf að tryggja að þau umskipti séu sanngjörn með því að menntakerfið hjálpi fólki að færa sig úr gráum störfum fortíðar yfir í græn störf framtíðar.

Vikið hefur verið að því í nokkrum ræðum hér fyrr í málinu hvernig áherslurnar í breytingartillögum og að miklu leyti í málinu öllu eru á úrbætur fyrir fyrrverandi lánþega. Ég held ég fari rétt með þegar ég segi að bráðabirgðaákvæðið sem kveður á um 14 milljarða viðbót sem meiri hluti nefndarinnar leggur til, snúist að mestu leyti um samkomulag milli stjórnvalda og BHM vegna skuldbindinga þeirra sem farnir eru að greiða af eldri námslánum. Eftir sitja núverandi stúdentar með kerfi sem er kannski skiljanlegra og sanngjarnara að mörgu leyti, en það er ekki heildarendurskoðunin sem þau voru að kalla eftir.

Þá langar mig að víkja aðeins að nokkru sem er fjær efni málsins, en það er hvernig við sem þing eigum í samskiptum við hagsmunaaðila sem mál snerta mikið, í þessu tilviki stúdenta. Ég sat t.d. fund allsherjar- og menntamálanefndar í lok nóvember þar sem fulltrúar stúdentaráðs Háskóla Íslands komu fyrir nefndina og gerðu grein fyrir mjög ítarlegri umsögn sinni, en vegna umræðna með fyrri gestum var minni tími til ráðstöfunar en þurft hefði að vera og nefndin náði ekki að ræða við stúdentana eins mikið og gott hefði verið að gera. Á það bendir stúdentaráð í ályktun sem það sendi frá sér fyrr í dag, að það hafi bara fengið að koma á þennan eina fund nefndarinnar til að fara yfir helstu athugasemdir sínar en að út af hafi staðið ýmis atriði sem ekki hafi náðst að gera nægilega grein fyrir, og það eru mörg atriði sem ekki ná inn í tillögur meiri hlutans. Það er því ærið verk fyrir höndum fram að heildarendurskoðuninni sem boðuð er innan þriggja ára til að ná almennilega utan um þau sjónarmið sem ekki hafa náð um borð.

Mér þykir líka dálítið kúnstugt að sjá — hvað á maður að kalla það, þetta er eiginlega eins og prútt. Stúdentar leggja til að sett verði vaxtaþak á lánin, sem meiri hlutinn verður við, enda vel rökstudd og skynsamleg tillaga. Stúdentar leggja til 3% þak á verðtryggð lán og 7% á óverðtryggð, en sú tillaga sem fær brautargengi er 4% og 9%. Það er því komið til móts við stúdentana, en ekki að öllu leyti. Þetta þykir mér sérstaklega áhugavert vegna þess að þessar tölur stúdenta voru ekkert úr lausu lofti gripnar, þær byggðu á greiningu, þetta voru mjög vandaðar tillögur. Það sem einkennt hefur það sem fulltrúar stúdenta hafa lagt fram í þessu máli er að þau segja ekki „mér finnst“ eða „okkur sýnist“, heldur byggja þau málflutning sinn á tölfræðilegum upplýsingum sem þau afla með könnunum hjá skjólstæðingum sínum, greiningum hjá ráðgjafarfyrirtækjum og sérfræðingum.

Síðan er það stóra málið sem koma hefði þurft inn á í frumvarpinu, þ.e. grunnframfærslan. Grunnframfærsla einhleyps námsmanns er 185.000 kr. á mánuði. Þetta eru u.þ.b. hálf lágmarkslaun. Það er ástæðan fyrir því að LÍN er ónýtt kerfi. Það þarf að laga þetta ef við ætlum ekki innan skamms að vera með hinn nýja Menntasjóð námsmanna jafn ónýtan og gamla kerfið.

Svo getum við aðeins rætt heildarsamhengið í þessu samtali okkar sem hér erum og stúdenta, vegna þess að lánasjóðurinn hefur alltaf gert ráð fyrir níu mánaða skólaári til framfærslu. Nú er verið að skapa sumarstörf fyrir námsmenn í kjölfar Covid sem virðast eiga að dekka tvo mánuði. Níu mánuðir í námslán plús tveir mánuðir í sumarstörf eru 11 mánaða framfærsla á ári sem ég held að séu 12 mánuðir hjá stúdentum eins og hjá öðrum. Þetta væri kannski ekki jafn mikið mál ef stúdentum hefði verið tryggður réttur til atvinnuleysisbóta á þessu undarlega sumri, eins og mælt var fyrir hér í þessum sal fyrir nokkrum vikum en ekki orðið við. Við megum líka alveg skoða ýmsar aðrar aðgerðir sem ráðist er í til handa stúdentum. Heilmiklum fjármunum var bætt í Nýsköpunarsjóð námsmanna til þess einmitt að ná utan um fólk sem ekki finnur vinnu í sumar. Laun úr Nýsköpunarsjóðnum eru 300.000 kr. á mánuði, þau ná ekki lágmarkslaunum frekar en framfærsluviðmið lánasjóðsins. Síðan rukkum við á sama tíma námsmenn óþarflega mikið á ýmsum stigum. Háskólinn er kominn með innritunargjöld upp á nærri 100.000 kr., sem námsmenn hlýtur að muna um. Þegar heildarráðstöfunartekjur einhleyps námsmanns sem fyllir frítekjumark sitt ná ekki einu sinni 3 milljónum á ári eru 100.000 kr. í að skrá sig til náms ansi mikið. Þannig að ég velti því fyrir mér við þá heildarendurskoðun sem fyrirhuguð er innan þriggja ára, hvort ekki þurfi að líta heildstætt yfir sviðið og skoða ekki bara framfærslukerfi sem við bjóðum námsfólki upp á, heldur ekki síður að vinna að því að gjaldtaka af ríkisins hálfu sé sem minnst þannig að nám verði í alvöru fyrir alla.