150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

störf þingsins.

[11:04]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja sífellt athygli á þessum vilja ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans sem komið hefur skýrt fram frá upphafi. Hún hefur verið dugleg við að draga það fram. Ég hef sagt það frá upphafi að vilji ríkisstjórnarinnar kemur mjög skýrt fram. Raunar er hann í 1. gr. einhverra þessara frumvarpa, þ.e. um skattskyldu hér á landi, og er augljóst að þetta er sett þar inn til að ná þeim vilja fram.

Síðan hef ég sagt að ef binda þarf einhverja fastari hnúta til að tryggja að þessi vilji stjórnvalda komi fram þá eigum við að gera það. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd fjallaði um þessi mál og hefur komið fram varðandi þau mál sem við höfum þegar fengið samþykkt að m.a. skattrannsóknarstjóri, skatturinn og fjármálaráðuneytið hafi talið, í kynningu og umræðu, að sú leið sem farin var í stuðningslánunum væri sambærileg því sem gerðist við hluta launakostnaðar og væri nægjanleg til að varna gegn því að fyrirtæki í skattaskjólum nýttu sér úrræðið.

Ef hv. þingmaður er með aðrar upplýsingar um það mál, sem hv. þingmaður vitnar hér í og ég hef ekki séð, ég hef bara heyrt það sem hún segir hér, þá er svarið ósköp einfalt í mínum huga: Við þurfum að tryggja að þetta sé svona. Við þurfum líka að tryggja að þetta sé sambærilegt við það sem gert er í öðrum löndum. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með því hvernig sumir, bæði hv. þingmenn og aðrir úti í samfélaginu, ræða um önnur lönd í þessu samhengi eins og þar sé verið að gera miklu meira en hér er reyndin. Það er ekki endilega þannig, hv. þingmaður, og er ágætt að skoða það.

Í mínum huga er þetta einfalt. Viljinn hefur verið skýr frá upphafi. Í faglegri umfjöllun þings og nefndar hefur komið fram að verið sé að gera það. Ef meinbugur er á því þá setjumst við einfaldlega yfir það. Svo einfalt er málið.