150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég get ekki orða bundist eftir sum orð sem fallið hafa í þessu púlti. Við erum að afgreiða hér hluta af aðgerðapakka ríkisins. Þegar fólk talar um að frumvarpið hvetji fyrirtæki til að segja starfsfólki upp, er fólki alvara, hefur fólk aldrei komið nálægt atvinnurekstri? Það segir enginn starfsmönnum upp að gamni sínu. Það er skilyrði hér að það hafi a.m.k. orðið 75% samdráttur hjá viðkomandi fyrirtæki. Hvaða fyrirtæki haldið þið að hafi efni á að halda öllu sínu starfsfólki í vinnu eftir að tekjur hafa fallið svo mikið? Það gengur bara ekki upp. Það sem við erum að gera er að reyna að gefa þessum fyrirtækjum tækifæri til að komast í híði, eins og við orðuðum það, þannig að þekkingin og reynslan varðveitist í fyrirtækjunum. Vonandi gengur ástandið yfir fljótt og vel og þá geta þessi fyrirtæki risið upp aftur, ráðið starfsfólkið aftur til sín og vonandi enn fleiri. Það er það sem við erum að gera hér.