150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:55]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Guð minn góður. Í fyrsta lagi vil ég að það komi skýrt fram vegna orða hv. þingkonu Bryndísar Haraldsdóttur að hér hafa ýmsir úr stjórnarandstöðu rekið fyrirtæki og farsællega í mjög langan tíma og kannski betur (Gripið fram í.) en almennt þekkist og við skiljum auðvitað þarfir atvinnulífsins og við vitum hvað það er erfitt að þurfa að segja upp fólki. Við hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé vil ég segja að við tölum líka við fólk hingað og þangað um landið og ferðumst rétt eins og þingmaðurinn gerir væntanlega. Við erum að tala um samspil tveggja frumvarpa sem við erum að ræða í dag og hvaða áhrif einstök skilyrði í þeim hafa til þess að ýta stjórnendum yfir í aðra leiðina frekar en hina, m.a. þá freistni sem felst í því að í öðru frumvarpinu er gerð krafa um hámarkslaun. Í öðru frumvarpinu (Forseti hringir.) getur fólk ekki nýtt sér að fullu starfskraft viðkomandi í sumar þegar einhver von er um ferðamennsku t.d. (Forseti hringir.) Þannig að ég ætla að biðja ykkur, hv. þingmenn, að láta það eiga sig að tala af yfirlæti og ef vilji er til þá getum við farið yfir rekstrarsögu einstakra þingmanna hérna.