150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[17:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja þingmanninn út í tvennt varðandi það hvernig velferðarnefnd afgreiddi þetta mál. Í fyrsta lagi spyr ég um skýrslu Ríkisendurskoðunar. Mér þótti fyrr í dag eins og þeir þingmenn sem standa að áliti meiri hluta nefndarinnar líti á skýrsluna sem ákveðið heilbrigðisvottorð fyrir það frumvarp sem við ræðum, þar sem það hnýtir lausa enda sem voru á fyrri útfærslu hlutabótaleiðarinnar, og ég held að sú túlkun geti vel átt við. En mér finnst fólk þá horfa fram hjá því sem skýrslan segir líka um hve mikilvægt er að orða vilja löggjafans skýrt, ekki bara hér í ræðustól, ekki bara í greinargerðum og nefndaráliti heldur í lagatexta. Ég spyr hvort hv. þingmanni þyki nógu vel hafa verið brugðist við þessu, hvort það eru einhver atriði sem stuðningsfólki frumvarpsins finnst vel fyrir komið en þingmanninum þætti kannski betra að koma í lagatexta. Þetta er fyrra atriðið sem ég vil spyrja um.

Seinna atriðið snýst um það sem hv. þingmaður kallar heildræna nálgun á þetta mál og uppsagnarstyrkina, þessi systurfrumvörp sem í 1. umr. var talað um að þyrfti að skoða í samhengi. Hvernig var það samhengi tryggt séð frá velferðarnefnd? Hvernig fjölluðu þær tvær nefndir, velferðarnefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, um málin? Hvernig töluðu þær saman til að tryggja einhvers konar samfellu milli þessara mála sem eðli máls samkvæmt snúast um að kreista fólk af hlutabótum yfir í uppsagnarstyrki? Þetta eru tveir endar á sömu pípu.