150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[18:26]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um hvort henni finnist það eðlilegt sem maður hefur heyrt að ríkisfyrirtæki og sveitarfélög nýti sér þessa leið. Ég tel að það hafi ekki verið upphaflega hugsunin. Ef félög í eigu ríkisins eru að nýta þetta er það eins og að taka peninga úr einum vasa og færa yfir í hinn. Þetta eru mjög skrýtnar tilfæringar. Ég set líka spurningarmerki við sveitarfélögin og ríkisendurskoðandi gerði líka athugasemd við það.

Síðan langar mig líka að velta því upp að við vitum að í ferðaþjónustunni fór stærsti hlutinn af greiðslum í gegnum erlendar bókunarsíður eins og booking.com og slíkar síður. Þær taka töluverðan hluta af þeim upp í kostnað. En við vitum að ákveðinn hópur er með erlenda reikninga og lætur leggja inn á þá. Ég hef oft spurt mig um hversu mikið það er og hversu mikið skilar sér hingað. Sér hv. þingmaður einhverja leið til að komast að því þannig að það sé ekki verið að hjálpa þeim sem þurfa hreinlega enga hjálp og eiga bara nóg af peningum? Það segir sig sjálft að það verður aldrei tilgangur þessara laga og þess vegna þarf að setja einhvern veginn undir þennan leka.