150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[18:28]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi það að sveitarfélög séu að nýta sér þessa leið þá held ég að tvö eða þrjú sveitarfélög hafi nýtt sér hana. Starfsemi sveitarfélaga getur náttúrlega verið ólík. Ég veit ekki hvaða stofnanir innan sveitarfélaga fóru þessa leið, ég þekki það ekki. En vissulega var ástandið þannig, eins og kom fram í ræðu minni, að óvissan var alger og þau hafa kannski talið sig þurfa aðstoð. Sveitarfélögin eru náttúrlega ekki rekin á sama hátt og ríkið. Það er kannski hjá stofnunum ríkisins þar sem þetta fer úr öðrum vasa í annan. Ég veit ekki hvað hefur rekið þau til þess að fara þessa leið. En þetta var alla vega í boði og þau nýttu sér það og ef það hefur verið þannig að þetta fór úr einum vasa í annan þá held ég að markmiðið sé það sama.

Hvað varðar það að geta girt fyrir að fyrirtæki, sem þurfa ekki á þessari leið að halda, fari hana þá teljum við okkur vera að taka svolítið fyrir það, eins og hægt var. Hv. þingmaður situr með mér í nefndinni og fyrir nefndina komu skattrannsóknarstjóri og ríkisskattstjóri og fleiri sem fjölluðu um að það væri mjög erfitt að girða algerlega fyrir þetta. Eins löglegt og það er, er það náttúrlega siðlaust og maður kallar bara eftir samfélagsábyrgð fyrirtækjanna í þeim efnum.