150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[18:30]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir andsvarið. Ég get upplýst að samkvæmt Ríkisendurskoðun voru það einn hreppur og tvær byggðir, sem sagt sveitarfélög, sem notuðu þessa leið og voru með 15, sex og sex starfsmenn. Síðan var Sorpa með 36. Við vitum það. Ég segi fyrir mitt leyti með ríkið, jú, það fer úr einum vasa í annan, en það er kannski óþarfi að ríkisstofnanir séu að fara þessa leið með tilheyrandi umsóknum og kostnaði við að afgreiða þær. Það finnst mér hreinlega algjör óþarfi.

Við getum að vísu ekki komið í veg fyrir svik í þessu kerfi en okkur ber skylda til þess að girða fyrir það á allan hátt eins og við mögulega getum. Telur hv. þingmaður virkilega, eins og þetta er sett upp, að Vinnumálastofnun sé hæf og geti tekið á þessum málum núna strax? Eða er það eins og okkur grunar og virðist vera, að það verði ekki hægt að fara í eftirlit af fullum krafti fyrr en í haust eða næsta vetur? Auðvitað þarf það fólk sem á að ráða þar inn að öðlast einhverja reynslu og þekkingu á því hvernig á að vinna þetta. Ég óttast að staðan verði sú að fyrst verði borgað, svo rannsakað.