150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[19:30]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér framlengingu á svokallaðri hlutabótaleið. Þau tvö mál sem við höfum verið að ræða hér í þingsal síðustu daga, þ.e. aðstoð við greiðslu launa í uppsagnarfresti og svo hlutabótaleiðin, eru mál sem tengjast nokkuð mikið. Það hefur komið fram, og kom fram strax í upphafi þegar ráðherrar málaflokkanna mæltu fyrir þeim, að þau væru mál sem erfitt væri að ræða, erfitt að meta kostnað við eða meta önnur áhrif án tillits til þess hvernig hitt málið færi. Það sem hefur flækt alla umræðu er sú staðreynd að málunum er vísað hvoru til sinnar nefndarinnar og þau eru unnin hvort í sínu lagi. Ef maður skoðar umræðuna sem frá upphafi hefur verið um málin þá hafa ýmsir orðið til þess víða úr flokkum að stinga upp á því að þau yrðu rædd saman í sömu nefnd, annaðhvort sem eitt og sama mál eða aðskilin, eins og nú er til að þau myndu þróast og þroskast saman og að menn hefðu sameiginlegan skilning á því í hvaða átt væri verið að fara. Staðreyndin er sú að upplifunin er á þann veg að þessi mál hafi í meðförum nefnda síðustu daga svolítið verið að færast í ólíkar áttir. Þá vaknar sú spurning hvort það þjóni best hagsmunum þeirra sem málunum er ætlað að þjóna.

Ég ætla ekki að ræða þau bæði. Ég ætla að ræða hlutabótamálið. Ég er sem áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd samþykk nefndaráliti og breytingartillögum frá 2. minni hluta nefndarinnar. Formaður velferðarnefndar og framsögumaður þess álits fór vel og ítarlega yfir það í ræðu sinni fyrr í dag. Ég ætla ekki að lengja umræðuna frekar með því að fara í sama farveg heldur nefna nokkur mál. En til aukins skýrleika tek ég fram að ég tek heils hugar undir það sem hv. formaður velferðarnefndar, Helga Vala Helgadóttir, ræddi í sínu máli, um þær forsendur sem liggja til grundvallar þeim breytingartillögum sem minni hlutinn leggur til og annað sem fjallað var um þar.

Mig langar að byrja á því að víkja máli að umræddri skýrslu frá Ríkisendurskoðun sem kom út í gær. 2. minni hluti bregst við þeirri skýrslu í áliti sínu, þótti rétt að gera það, og í breytingartillögum. Það vakti athygli mína að heyra framsögumann meiri hlutans, hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, tala í framsöguræðu sinni eins og ekki gengi hnífurinn á milli skýrslu Ríkisendurskoðunar og þess álits. Ég er einfaldlega ósammála því. Þar finnst mér t.d. verið að rugla saman hugtakinu skilyrðum, sem eru vægast sagt mörg og ítarleg hjá meiri hluta velferðarnefndar, og hugtakinu eftirliti, sem ríkisendurskoðanda verður tíðrætt um. Ríkisendurskoðandi talar mikið um það að á meðan allt bendi til þess að hlutastarfaleiðin hafi nýst vel til að tryggja framfærslu launamanna, styðja við vinnuveitendur vegna samdráttar og viðhalda ráðningarsambandi, sem er nákvæmlega það sem þessu máli var ætlað að gera og er ætlað að gera, hafi komið í ljós, þrátt fyrir að stjórnvöld hafi lagt áherslu á að um væri að ræða stuðning við lífvænleg fyrirtæki sem misst hefðu miklar tekjur, að svo virtist sem nokkurt frjálsræði hefði verið á túlkun laganna. Með öðrum orðum þyrfti ekki endilega stífari skilyrði og að þrengja þetta enn frekar heldur þyrfti að hafa eftirlit með því að það yrði framkvæmt sem ætlast var til af lögunum eins og þau voru og þeim lögskýringargögnum sem þá lágu fyrir. Þannig sé haft eftirlit með nýtingu ríkisfjár eins og Ríkisendurskoðun ber að gera og staðinn vörður um hagsmuni ríkissjóðs.

Þá veltir maður því líka fyrir sér hvað hefði mátt fara betur í fyrra málinu sem hægt hefði verið að laga hér. Þá koma upp atriði á borð við það sem við reynum að mæta í áliti 2. minni hluta, t.d. skilgreining á því hvað er „alvarlegur rekstrarvandi“ og hvað er „mikið tekjutap“. Það þarf ekkert að fara saman. Síðan er það sem Ríkisendurskoðun leggur mjög mikla áherslu á í skýrslu sinni, mikilvægi þess að rauntímaeftirlit sé viðhaft og Vinnumálastofnun sé gert kleift að sinna því. Og það er annað sem við bregðumst við í tillögum og áliti 2. minni hluta. Ef við förum yfir þau atriði sem hér er að finna og sérstaklega er drepið á í áliti minni hlutans — ég ætla ekki alveg að skauta yfir það þó að ég ætli ekki að hafa mörg orð um það — þá eru það upplýsingar um fyrirtæki sem nýta sér stuðning. Frumvarpið gerir einfaldlega ráð fyrir því að veittar séu upplýsingar um þau fyrirtæki en í tillögum meiri hluta er gerð tillaga um að það verði einskorðað við fyrirtæki með fleiri starfsmenn en sex. Það er, svo að því sé haldið til haga, fyrirkomulagið sem Vinnumálastofnun viðhefur í dag. Við í 2. minni hluta leggjum hins vegar til að þetta sé haft óbreytt, að það eigi við um öll fyrirtæki af því að við lítum svo á að upplýsingaskyldan sé svo rík og upplýsingagjöfin það mikilvæg og við sjáum heldur ekki rökin fyrir því að gera þann greinarmun.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram að 85% þeirra 6.432 fyrirtækja, held ég að sé, sem hafa nýtt sér leiðina séu með sex starfsmenn eða færri. Það er þá verið að undanskilja þann stóra hóp. Ég verð að segja fyrir mitt leyti: Mér þykir miklu æskilegra að birtur verði listi yfir öll þessi fyrirtæki, litlu fyrirtækin líka. Í því felst ákveðið aðhald og ég myndi vilja slaka á, rétt eins og lagt er til í breytingartillögum 2. minni hluta, mörgum af þessum rekstrarlegu skilyrðum sem gefin eru vegna þess að þeim er ætlað að koma í veg fyrir að mjög vel rekin, vel stödd, vel stöndug fyrirtæki, sem vissulega hafa orðið fyrir tekjutapi, það er eitt skilyrðanna, ofnýti úrræðið; koma í veg fyrir að þau nýti sér úrræði sem þau þurfa ekki á að halda. Ég sé ekki fyrir mér að mörg fyrirtæki með sex starfsmenn eða færri sem verða fyrir gríðarlega miklu tekjutapi geti lifað af án þess að nýta sér úrræðið eða muni laða að sér gríðarlega fjármuni sem þau eiga ekki rétt á þó að slakað sé á skilyrðum um arðgreiðslur næstu þrjú árin eða kaup á eigin hlutabréfum. Við vitum að mörg af þessum smærri fyrirtækjum, ekki síst í ferðaþjónustu, þeim atvinnuvegi sem við erum að leggja allt undir núna til að vernda og halda á lífi, eru í eigu einstaklinga sem hafa lagt allt að veði til að halda fyrirtækjunum, koma þeim á laggirnar, m.a. með því að veðsetja eigið húsnæði. Arðgreiðslur næstu ára, ef reksturinn fer samkvæmt áætlun fyrir Covid, hjá svona fyrirtækjum fara í að létta veðum af þeim eignum. Það er ekki óráðsía. Þaðan af síður eiga arðgreiðslur að skapa huglæg tengsl við skattsvik, eins og mér hefur þótt margir skauta ansi nálægt í orðræðunni. Það er einfaldlega himinn og haf þar á milli. Rétt er að benda á í því tilliti að sú atvinnugrein sem mögulega hefur komið illu orði á arðgreiðslur frá íslenskum almenningi á síðustu vikum, mánuðum og árum hefur ekki farið varhluta af beinum eða óbeinum ríkisstuðningi. Það er miklu stærri umræða ef menn ætla að fara að hjóla í lög um arðgreiðslur fyrirtækja. Það er kannski vert að skoða svolítið.

Þau 85% fyrirtækja af 6.432 sem eru með sex starfsmenn eða færri eru ein stærðin sem er vert að hafa í huga þegar verið er að tala um öll þessi stífu skilyrði sem að mínu viti, og okkar sem stöndum að þessu áliti, eru jafnvel líkleg til að ganga gegn yfirlýstu markmiði um að gæta hags launþega hjá viðkomandi fyrirtækjum. Sá hagur er samofinn hag fyrirtækjanna sem um ræðir. Við skoðuðum hvernig menn hafa farið að í nágrannalöndunum og það verður að segjast eins og er að annars staðar á Norðurlöndum eru í gildi kerfi sem buðu upp á miklu sneggri viðbrögð. Það var eiginlega innbyggt í þau kerfi sem þegar eru til staðar að bregðast við sveiflum eins og við erum að upplifa núna. Svona kvaðir, eins og hér er verið að leggja til af hálfu meiri hlutans að lagðar verði á öll fyrirtæki sem nýta sér hlutabótaleiðina, eiga sér ekki hliðstæðu annars staðar á Norðurlöndum. Þó fann ég yfirlýsingu í Danmörku um að arður verði ekki greiddur eða eigin hlutir keyptir á fjárhagsárinu 2021 ef fyrirtæki þiggja meira en 60 milljónir danskra króna í stuðning frá ríkinu. Það eru 1,2 milljarðar íslenskra króna, svo að það sé sett í samhengi. Við vitum að hér á landi erum við að spila á töluvert minni markaði, með lægri fjárhæðir. Þegar við skoðum listann í skýrslu Ríkisendurskoðunar yfir þau fyrirtæki hvers launþegar hafa notið stuðnings eða styrks eftir hlutabótaleiðinni þá hafa 27 fyrirtæki fengið meira en 30 milljónir. Það sem fékk mest, og við vitum öll að það er Icelandair, fékk tæpan milljarð. Næstu fyrirtæki þar á eftir, sem eru öflug og stór fyrirtæki í ferðaþjónustu, eru með 100–200 milljónir og síðan fer þetta hratt niður. Yfir 30 milljóna markið hafa farið 27 fyrirtæki af 6.432. Við erum sammála þeim markmiðum sem stefnt er að, við viljum ekki að úrræðin séu misnotuð. Stjórnendur margra fyrirtækja lifa í nú í þeim veruleika eins og aðrir að upplifa mikið tekjutap en ef reksturinn stendur styrkum fótum er það okkar mat að það sé miklu eðlilegra að stjórnendur stöndugra fyrirtækja sýni þann siðferðislega styrk að ganga ekki í þessa sjóði vegna þess að við vitum alveg hver staða ríkissjóðs er og mun verða.

Við vitum líka að viðskiptavild skiptir fyrirtækin miklu máli. Það er ástæðan fyrir því að þegar upplýsingar fóru á flot um hvaða fyrirtæki þetta væru þá endurgreiddu ákveðin fyrirtæki stuðninginn. Það er hluti af kerfinu okkar. Það er líka hluti af því sem segir að það sé að virka, til að reyna að forðast að það verði of óaðgengilegt. Að skömm sé fólgin í því að sækjast eftir úrræðinu, af því að þá sé maður kominn í lið með einhverjum óæskilegum, getur ekki verið það sem við ætlum að stefna að. Við hljótum að geta verndað ríkissjóð á annan og uppbyggilegri hátt en með því að girða af og gera þetta fullkomlega óaðgengilegt. Við leggjum til 50 milljóna mörk. Fyrirtæki sem hafa fengið styrk eða munu hljóta styrk yfir þeirri upphæð gangast undir þær kvaðir. Þau eru ekki mörg. Ég hefði kannski sagt fyrir tveimur, þremur dögum að þeim ætti eftir að fjölga en nú er ég bara hreint ekki viss af því að ég átta mig engan veginn á áhrifunum af samspili þessara tveggja leiða, þessarar og aðstoðar við laun á uppsagnarfresti. Kannski fækkar þeim bara, kannski þýðir þetta að enginn tekur þetta. En við erum alla vega að koma inn með þær leiðir til að reyna að ýta undir það að lítil fyrirtæki, sem eru með tekjutap einhvers staðar á bilinu 25–75%, geti þegið þennan ríkisstuðning til að halda ráðningarsambandi við starfsfólk sitt. Starfsfólkið er betur sett þarna en að fara á uppsagnarfrest en samt er ekki lokað fyrir það að það sé eftirsóknarvert, jákvætt og gott að vera að fara í hefðbundinn rekstur og skila hagnaði innan tíðar. Við erum líka að leggja það til að fyrirtæki sem myndu falla undir þessi skilyrði, geta ekki þegið þetta og á sama tíma greitt út arð á næstu tveim árum, geti endurgreitt án þess að þurfa að greiða 15% álag eins og lagt er til af meiri hlutanum ef þau eiga frumkvæði. Öðru máli gegnir ef menn verða uppvísir að því að hafa reynt að skjóta sér undan þessu og þá er að mínu mati fullkomlega eðlilegt að leggja sektarálag á. Þetta eru svona tilhliðranir sem ég og aðrir sem að þessu áliti standa erum sannfærð um að séu til mikilla bóta.

Við tókumst töluvert á, svo að það sé sagt, um launaþak í lögunum. Það er launaþak í þessu máli, þrjár milljónir. Ég er ekki hrifin af því og er talsmaður flokks sem er ekki hrifinn af því. Við teljum það geta hamlað samkeppnishæfni fyrirtækja. Við teljum að það sé ekki, bara af prinsippástæðum, eðlilegt að Alþingi sé að hlutast til um þau mál. Ég átta mig á því að á móti kemur að menn segja: En eru prinsipp fyrir því að fyrirtæki fái ríkisaðstoð? Það er það ekki en við vitum af hvaða ástæðum það var en þá stígum við ekki meira inn en við þurfum. Ég held að það geti haft verri áhrif á samkeppnishæfni fyrirtækja til lengri tíma litið. Það situr líka í mér að þetta eigi að einskorðast við stjórnendur. Við þekkjum það, vonandi mörg, að það eru ekki alltaf stjórnendur sem eru hæstir í launum, það er bara þannig. Það sem situr mest í mér er að þetta tiltekna ákvæði er ekki í hinum lögunum og breytingartillaga þess eðlis var felld, og ég segi aftur að ég skil ekki samspil þessara mála. Ég ætla bara að nota tækifærið, með hv. formann fjárlaganefndar í salnum, þó að hann sitji nú í hvorugri nefndinni, til að segja að mér hefði þótt eðlilegt að samræmd vinnubrögð hefðu verið í vinnslu þessara tveggja mála. Það truflar hvað þau virðast hafa tekið ólíka sveigju. En svona er þetta. Þetta er mörgum mikilvægt og ég get alveg skilið það líka. Þetta eru bara mismunandi sjónarmið og mismunandi mat á áhrifum, hvort þetta er jákvætt eða neikvætt til lengri tíma eða skiptir máli. Ég held að þetta tiltekna ákvæði, launaþak, sé ekki það sem muni fæla frá þessari hlutabótaleið. Ég hef meiri áhyggjur af tímalengdinni varðandi arðgreiðslurnar, af hömlum við að kaupa eigin bréf og af sektarákvæðinu sem er ekki bara óþarfa 15% ofan á fyrirtæki, sem seinna meir, kannski innan tveggja, þriggja ára, átta sig á því að þau þurftu þetta ekki og vilja endurgreiða, heldur einnig orðsporsáhætta. Þetta er þannig orðað að ég sé fyrir mér að fyrirtæki veigri sér við að koma nálægt því, svo að ég segi það eins og það er.

Við viljum gera vel og meiri hluti Alþingis telur sig gæta hagsmuna ríkissjóðs sem best með þessu. Ég ætla ekki að vera með neinar yfirlýsingar um neitt annað, ég held að við séum öll að reyna að vanda okkur. Ef þetta frumvarp verður afgreitt hér í þingsal og fer svona frá okkur og leiðir til þess að fyrirtæki veigri sér við að nýta sér úrræðið skulum við átta okkur á því að þá situr þorri fyrirtækja, sem hefur orðið fyrir tekjufalli, 25% upp í 75%, eftir með ekkert sérstaklega mörg úrræði. Það sem verra er, þá skiljum við launþega þeirra sömu fyrirtækja svolítið eftir í lausu lofti. Það er ekki ætlunin. Þess vegna hefði ég óskað eftir því að þetta væri betur ígrundað. Það er alltaf hægt að óska eftir meiri tíma en sannarlega á það við í þessu tiltekna máli. Síðustu minnihlutaálitin og breytingartillögur voru eiginlega ekki tilbúnar fyrr en eftir að umræðan hófst í dag sem er ekki til eftirbreytni. En þetta er svona, þetta er tímasetningarmál og við horfum fram á mánaðamót. Ég vildi óska að í afgreiðslu málsins hér á eftir, í kvöld og mögulega fram á nótt, verði þær breytingartillögur sem hér eru lagðar fram ígrundaðar einlæglega af meiri hlutanum en ekki afgreiddar umhugsunarlaust með því einu að lesa fyrirsagnirnar þar sem stendur: „2. minni hluti“. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)