150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[20:22]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma með þessa spurningu þannig að ég geti útskýrt mál mitt. Það sem ég á við er eiginlega bara lögfræðin í málinu. Það sem er í frumvarpinu er hluti af viðurlögunum. Ef fyrirtæki hafa nýtt sér úrræðið án þess að hafa rétt til þess eða farið á skjön við þetta þurfa þau að greiða með 15% álagi þann kostnað sem Atvinnuleysistryggingasjóður hefur orðið fyrir af því að þau höfðu ekki rétt á þessu.

Vegna þess hvernig óvissan var, var talið rétt að lækka álagsprósentuna. Flest svona viðurlög eru með 50% álagi en ákveðið var að hafa það 15% í þessu máli. En það sem ég er að tala um og er breytingartillaga minni hlutans, er að fyrirtækin geti greitt þetta til baka áður en þetta er orðið vegna viðurlaga eða vegna þess að þau hafi ekki notað þetta ekki rétt. Þar er stór munur á, þannig að fyrirtækin hafa ekki fengið neitt. Þess vegna er svo erfitt að endurgreiða það. En þarna erum við að tala um þann kostnað sem varð, sem er orðinn að viðurlögum.