150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

kostnaður í heilbrigðiskerfinu.

[13:55]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Loksins þegar við erum að sjá út úr Covid-þokunni spyr ég mig: Á hvaða vegferð er heilbrigðiskerfið okkar? Pattstaða ríkis og sveitarfélaga við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur hjúkrunarheimila vegna mikils rekstrarkostnaðar. Vestmannaeyjar, Akureyri, Hornafjörður, allir segja sig frá þessu vegna tugmilljónakostnaðar vegna þess að vitlaust var reiknað. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, þar sem fólksfjöldinn hefur aukist úr 16.000 í 28.000 frá 2002 — hvar er bráða- og slysamóttakan þar? Jú, hún er staðsett í herbergi sem telst vera gott eða kannski frekar lélegt sem skúringa- og kústaskápur. Þar er skrifstofan. Þar er lyfjageymslan. Þar er kaffistofan, allt í einu og sama litla herberginu.

En dugir þetta til fyrir heilbrigðiskerfi okkar? Nei, börnin okkar, t.d. barn með skarð í góm er inni í kerfinu en vegna einhverra stórfurðulegra reglugerðabreytinga sem Sjúkratryggingar Íslands og ráðherra standa fyrir er búið að búa til þá stíflu að það þarf að fá mat hjá tannlæknadeild Háskóla Íslands, sem er ekki hægt að fá. Einstaklingar koma utan af landi með barnið sitt til þess að fara með það og láta laga, það er þegar komið inn í kerfið. Þetta fólk er stopp, þarf sjálft að standa undir 100.000, 200.000 kr. greiðslum. Þetta á bara að vera sjálfsagður hlutur. Hvernig stendur á því að við séum aftur og aftur í þessum stól að benda á að börn með skarð í vör fá ekki þjónustu? Er það ekki lágmarkskrafa, hæstv. heilbrigðisráðherra, að þessi börn fái þá þjónustu sem þau eiga skilið?