150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

kostnaður í heilbrigðiskerfinu.

[13:58]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir allviðamikla spurningu sem sneri m.a. að rekstri hjúkrunarheimila og stöðunni gagnvart sveitarfélögum, sem sneri að stöðunni á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og síðan að þeim umbúnaði sem er við lýði varðandi rétt barna sem fæðast með skarð í vör til endurgreiðslu úr Sjúkratryggingum Íslands. Ég ætla að byrja á þeim hluta og sjá svo hvort tími gefst til að klára hitt.

Ástæðan fyrir því að börn með skarð í tannboga eða klofinn góm hafa ekki verið tekin í skoðun hjá tannlæknadeildinni eru takmarkanir á samkomum vegna farsóttar sem heitir Covid-19 og hefur valdið því að ýmis mál hafa setið á hakanum. Samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands er það mál sem hv. þingmaður vísar til í farvegi og Sjúkratryggingar munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að flýta afgreiðslu þess.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um stöðuna hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja að því er varðar húsnæðismál. Um þetta var aðeins fjallað í fréttum í gær. Það kom raunar fram í þeim fréttaflutningi að lagðar hafa verið til 200 milljónir núna til að koma til móts við mesta vandann sem þar er viðvarandi í sérstakri framkvæmdaáætlun ríkisins vegna Covid-19.

Hv. þingmaður spyr svo um hjúkrunarheimilin og reksturinn þar. Ég verð að segja að ég hef miklar væntingar til þeirrar greiningar sem samþykkt var að ráðast í, sem var sérstök bókun við síðasta samning um rekstur hjúkrunarheimila. Í þeirri bókun sammæltust aðilar um mikilvægi þess að fara í ítarlega greiningu á þeim raunkostnaði sem rekstur hjúkrunarheimila felur í sér og á þeim grunni tel ég að samtalið geti orðið miklu markvissara.