150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[15:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að játa að mér fannst sumt pínuskrýtið í ræðu hv. þingmanns sem mig langar að spjalla aðeins við hann um. Hv. þingmaður nefndi að við ættum að berjast gegn öllu ofbeldi. Það er alveg rétt. En hv. þingmaður hlýtur að sjá að kynbundið ofbeldi, heimilisofbeldi, ofbeldi gegn börnum og þess háttar, á sér vitaskuld stað undir öðrum kringumstæðum en þegar einhver er kýldur í magann klukkan þrjú í miðbæ Reykjavíkur, ekki að það sé mjög algengt. Það er eðlismunur þarna á, nefnilega sá að ofbeldi heima fyrir, í samböndum og þess háttar, er jafnan réttlætt. Það er tegund af hegðun sem verður fljótlega eðlileg á einhvern hátt í hugum bæði ofbeldismannsins og fórnarlambsins. Þess vegna þarf þessa fræðslu. Það þarf að útskýra fyrir fólki með orðum, strax á barnsaldri, hvað er eðlileg hegðun og hvað er ekki eðlileg hegðun. Mörk fólks eru oft mjög óljós, sér í lagi ef ekki er talað um þau. Þess vegna er sér í lagi mikilvægt að fræða börn, eða bara fólk almennt, um það hvernig maður setur mörk og segja fólki að það eigi sinn líkama og þurfi ekki að gefa neinar skýringar á því hvort það vilji þetta eða hitt varðandi líkama sinn. Það er mjög mikilvægur boðskapur sem hefur skort í menningu okkar í gegnum tíðina.

Það hefur verið mjög mikil tilætlunarsemi gagnvart öðru fólki, t.d. einhver sem telur sig aldrei vera að beita ofbeldi, telur sig mega það, telur sig hafa rétt á því. Mér finnst þetta sjónarmið vanta í ræðu hv. þingmanns þar sem hann setur allt ofbeldi undir einn hatt. Þetta er ekkert einfalt, þetta eru eðlisólík brot sem gerast við ólíkar kringumstæður og það þarf að grípa inn í með forvörnum á misjöfnum tíma. Þegar um er að ræða ofbeldi þarf að mínu mati að grípa inn í á barnsaldri. Það snýst ekki um að hræða börnin, en það þarf að vara þau við því sem getur gengið á í lífi þeirra og þau upplifa sem eðlilegan hlut ef þau alast upp við það. Börnum finnst allt eðlilegt. Það er stóri vandinn. Börnum finnst allt eðlilegt, eiginlega alveg sama hvað það er. Þess vegna þarf að grípa inn í snemma. Þetta fannst mér vanta í ræðu þingmanns. Ég er í sjálfu sér ekki með spurningu. Þetta er bara einlægt andsvar.