150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021–2025.

643. mál
[15:26]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nefnilega málið. Börn á leikskólaaldri verða fyrir kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi, það er mjög mikilvægt að hafa það í huga. Það er því mjög mikilvægt að þeir sem vinna með börnum, eins og áætlunin gerir ráð fyrir, haldi vel utan um þetta, þekki merkin og viti hvenær hægt er að grípa inn í. Hér er rætt um forvarnir sem hæfa leikskólabörnum og fjallað um ólíkar leiðir barna sem hafa orðið fyrir ofbeldi og áreitni til að greina frá reynslu sinni. Það er verið að reyna að vinna að samhæfðum viðbrögðum og öðru slíku.

Ég spyr hv. þingmann aftur: Hvað með fólk sem vinnur með börnum? Sér hann ekki fyrir sér að það þurfi, af því að mikil áhersla er lögð á það í þessari áætlun, að uppfræða þá sem vinna með börnum á leikskólaaldri algerlega upp úr? Er hann að tala um að það eigi bara að skima hvort starfsmenn verði varir við eitthvað en ekki að ræða málið sérstaklega? Er það það sem hv. þingmaður er að tala um í stað þess að við gerum ráð fyrir því að rætt sé opinskátt um þetta á þann hátt að það sé við hæfi aldurshópsins? Ég treysti kennurum vel til þess, ég hef starfað á þeim vettvangi sjálf og veit að þeir eru fullfærir um það, og ég tala nú ekki um ef þeir fá til þess stuðning við kennslu og námsefni í hendur.