150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun fyrir árin 2021-2025.

643. mál
[16:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu vil ég fagna því að þessi tillaga til þingsályktunar skuli aftur vera komin hér fram. Í nefndarálitinu segir:

„Markmið þingsályktunartillögunnar er að uppræta alfarið kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni úr íslensku samfélagi.“

Þetta er háleitt markmið og stórt og minnir örlítið á „Fíkniefnalaust Ísland árið 2000“, sem margir hafa hent gaman að síðan þó að það sé grafalvarlegt mál, nákvæmlega eins og þetta er grafalvarlegt mál. Það vill nú þannig til að mér finnst, verandi á þeim aldri sem ég er, að hér áður fyrr hafi ofbeldismál, sérstaklega kynferðisofbeldismál, verið tabú, raunverulega var talað þannig um þau að þau þekktust ekki í íslensku þjóðfélagi, þau væru ekki til, væru bara til í útlöndum. Svipað sjónarmið var eiginlega uppi varðandi t.d. heimilisofbeldi, það átti hvergi að vera til á Íslandi. Síðan vöknum við upp við vondan draum þegar skriða af ofbeldismálum kemur upp á yfirborðið og í ljós kemur að allt það sem haldið var fram áður fyrr um þessi mál var reist á sandi. Þegar allt kom til alls vorum við Íslendingar ekki betri en aðrir eða á betri stað hvað þessi mál varðar.

Það ber að fagna þessari tillögu sem kemur hér fram af ærinni ástæðu. Bæði er það nú að á sínum tíma kom fram ágæt skýrsla þegar við vorum upptekin af hugtaki sem kallast á íslensku #églíka. Þá kom fram ágætisskýrsla og ágætisgreining, m.a. á ofbeldi og áreiti í stjórnmálum, og að því leyti til fannst mér sú skýrsla eða þær frásagnir nákvæmari en skýrslan sem kom fram mjög nýlega sem þarf virkilega að ræða líka. En í þeirri skýrslu var t.d. ekki reynt, alla vega ekki eins og ég er búinn að lesa hana og skilja hana, að gera greinarmun á því hvort áreitið og ofbeldið sem sagt var frá var t.d. hér í Alþingishúsinu, á vinnustaðnum, eða hvort það var fyrir utan vinnustaðinn, nákvæmlega eins og fram komu hótanir og ofbeldi í garð fjölskyldufólks eða fjölskyldumeðlima sem væntanlega hafa ekki komið héðan af þessu svæði.

Þetta þurfum við allt að greina vegna þess að við þurfum að vita um kringumstæður. Við þurfum að reyna að koma okkur í aðstöðu til að skilja aðstæður. Þetta fannst mér eiginlega vanta inn í þessa nýjustu skýrslu. En það er mjög margt sem við þurfum að bæta hvað þessi mál varðar. Það er talað sérstaklega um fræðslu og þá verð ég að viðurkenna það, herra forseti, að ég sakna þess nokkuð að ég kallaði eftir því, við fyrri umræðu þessarar ályktunar, að fulltrúar kirkjunnar yrðu kallaðir til. Ég sé ekki, í því nefndaráliti sem hér fylgir, og ég sé ekki í því sem hér kemur fram, að það hafi verið gert. Og hvers vegna var ég að tala um þetta? Jú, ég talaði um það vegna þess að ég hef haldið því fram lengi að fermingarfræðslan, þegar börn eru að mótast mjög hratt, ætti t.d. að taka til þessa. Þá er ég ekki endilega að tala um að það eigi eingöngu að vera á vegum kirkjunnar heldur líka á vegum lífsskoðunarfélaga, þ.e. að kynna börnum mörk. Ég segi kynna en ekki kenna — kynna þeim mörk og kynna þeim afleiðingar sem það getur haft að fara yfir mörkin. Ég held að ekki sé vanþörf á því.

Hér hafa verið dregin fram í umræðunni ágætisdæmi um aðstæður þar sem þeir sem hafa yfirburði beita þá sem eru minni máttar annaðhvort áreiti eða jafnvel ofbeldi. Það hefur verið talað um kennara og nemanda, yfirmenn í viðskiptum við undirmenn. Talað hefur verið töluvert um sviðslistafólk og ekki að ófyrirsynju. Ég held kannski, og ég tek undir það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði í ræðu sinni áðan, í upphafsorðunum, að maður hafi ekki gert sér nægilega vel grein fyrir því hversu útbreitt áreiti og ofbeldi er og að það sé nánast alls staðar um allt þjóðfélagið. Það er t.d. einn kimi — af því að við segjum ekki „sector“, herra forseti — sem er áreiti gagnvart fötluðu fólki, einkum konum, sem er náttúrlega himinhrópandi viðurstyggilegt framferði. En því miður hefur ekki alveg reynst mögulegt, að því er virðist, að ná árangri í því efni.

Ég vil líka minnast á að það hefur ekki verið einfalt fyrir fórnarlömb t.d. kynferðisofbeldis að koma frásögnum sínum á framfæri við yfirvöld, þ.e. lögregluyfirvöld o.fl. En það er reyndar búið að vinna þar undanfarin misseri mjög gott verk í því að fjölga fólki við lögreglustjóraembættið í Reykjavík sem hefur þekkingu á þessu sviði og síðan er búið að setja á stofn starfsemi eins og Bjarkarhlíð sem hefur reynst mjög vel, sett upp að erlendri fyrirmynd; er það sem kallast í öðrum löndum einskiptisstöð til að geta sagt sögu sína, bæði fagaðilum, lögregluyfirvöldum o.s.frv. Því miður þekkjum við öll hörmuleg örlög, einkum ungra stúlkna, sem hafa ekki fengið þær móttökur sem æskilegar hefðu verið og ég nefni líka erfiðleikana þeirra vegna sem birtast í því hvað málsmeðferðartíminn er óendanlega langur. Þessar stúlkur hafa þurft að segja sögu sína endurtekið, kannski yfir tveggja til þriggja ára tímabil sem hefur dregið það að þær geti snúið sér að því að byggja sjálfar sig upp aftur, ef við getum orðað það þannig, þ.e. náð að ljúka með einhverjum hætti þeirri hörmung sem þær urðu fyrir til að geta átt möguleika á því að byggja sig upp aftur. Þetta hefur því miður, bæði þessi málsmeðferðartími, sem var til skamms tíma allt of langur, og þessi tregða, sem maður varð sérstaklega var við áður fyrr, orðið þess valdandi að þær áttu mjög erfitt uppdráttar.

Síðan er náttúrlega komin fram ný ógn eða ógn sem er að verða miklu meira áberandi nú um stundir en áður var. Það eru níðingar sem lokka börn og ungmenni á netinu, undir fölsku flaggi oft og tíðum. Við erum ekki að ná, virðist vera, árangri í því að koma böndum sérstaklega á þá brotamenn.

Þá kemur reyndar líka annað, herra forseti, sem er nokkuð áberandi, að manni virðist, þ.e. að í þeim kynferðisofbeldismálum sem komið hafa fram virðist manni á dómaframkvæmd að menn þurfi að brjóta verulega alvarlega af sér til þess að fá fangelsisdóm, til að fá ekki bara skilorð í 12 mánuði eða 18 mánuði eða eitthvað slíkt. Manni virðist kannski, þetta er ekki vísindalegt, forseti, þetta er byggt á því að maður hefur verið að lesa þá dóma sem birtir eru og fylgjast með því sem kemur fram í fjölmiðlum um þessi mál, að refsiramminn sé ekki nýttur að fullu. Án þess að ég sé mjög refsiglaður maður hef ég meiri samúð með brotaþola en brotamanni þegar þessi mál ber á góma og ég held að við gætum í sjálfu sér, með því að taka öll þessi mál saman, náð betri árangri en við erum að ná núna.

Auðvitað snýst þetta fyrst og fremst um það að hver og einn einstaklingur taki ábyrgð á sjálfum sér. Það er í sjálfu sér mjög góð lífsregla sem höfð er uppi við sumarskemmtun austur á fjörðum. Þar er bara ein regla í hávegum höfð. Til þess að menn komist inn á þá skemmtun og megi vera þar þá gangast þeir undir það að þeir séu ekki fávitar. Ég held að það sé kannski ágætt fyrir hvern og einn einstakling að haga sér þannig að hann sé ekki eins og fáviti, eins og þar stendur. En þetta er mjög einföld regla, herra forseti, og ég held að í sjálfu sér geti menn tileinkað sér hana ef þeir leggja sig fram, jafnvel þótt þeir séu breyskir menn eins og við erum margir.

En auðvitað hefst þetta allt á því að við kynnum og kennum. Þess vegna ætla ég að segja það aftur að ég sé svolítið eftir því að þessi uppástunga mín, sem ég stakk upp á í fyrri umræðu, um að þjóðkirkjan yrði kölluð til, varð ekki að veruleika. Ég er alveg viss um að það gæti orðið til gagns og ég vil treysta því að þegar þessu máli vindur fram, og þegar farið verður að vinna eftir því sem hér er lagt til, rætist úr. Reyndar vekur það manni vissar vonir að á bls. 3 segir, með leyfi forseta:

„Nefndin bendir á að í áætluninni eru tilteknir ábyrgðaraðilar og sömuleiðis dæmi um samstarfsaðila við hverja aðgerð. Af því leiðir að ekki er um að ræða tæmandi upptalningu á samstarfsaðilum vegna einstakra verkefna og hvetur nefndin til þess að haft verði sem víðtækast samráð við stofnanir, fræðafólk og félagasamtök sem koma að forvarna- og fræðslumálum í því skyni að nýta fyrirliggjandi þekkingu og reynslu.“

Þarna ætla ég enn að nefna þjóðkirkjuna til leiks. Við höfum líka fengið frásagnir af því að um áreiti og ofbeldi sé að ræða í íþróttastarfi, ungmennastarfi. Það er náttúrlega mál sem við verðum að taka mjög alvarlega á vegna þess að íþróttir og íþróttastarf er nauðsynleg forvörn gegn bæði lífsstílssjúkdómum og jafnvel því að börn leiðist út í óreglu. Ef foreldrar og forráðamenn geta ekki treyst því að börn þeirra séu örugg við þá iðju er illa komið fyrir okkur öllum. Auðvitað þurfum við að taka verulega á þar.

Ég vil líka minnast á það, en þess er ekki getið í þessari þingsályktunartillögu og kannski ekki alveg ástæða til, að í Bretlandi, og það er reyndar byrjað í Kanada, fóru yfirvöld að taka öðruvísi á kynferðisafbrotamálum en áður var og fóru að beina kastljósinu meira að geranda en þolanda. Ég man eftir því að fyrir fimm árum lagði ríkissaksóknari í Bretlandi, ágæt kona, hverrar nafn ég man nú ekki, mikla áherslu á að þetta yrði gert og lögregluyfirvöld fóru að tileinka sér þetta í meira mæli en áður — ég held að ég hafi átt þessa umræðu áður og þá við hæstv. forseta sem hér situr nú. En menn töldu þá að sú stefna hefði orðið til þess að fjölga sakfellingum. Nú man ég ekki hlutföllin en þau voru alveg skelfileg. Til að fara stutta leið þá minnir mig að um þær mundir, ætli þetta hafi ekki verið um 2014, hafi um 60.000 konum verið nauðgað á ári í Bretlandi en sakfellingar voru 1.100 og það tættist náttúrlega utan af vegna þess að það voru ekki næstum því öll mál sem fóru fyrir dóm, mörgum var vísað frá. En kjarninn var þessi: 60.000 afbrot, meint, og 1.100 sakfellingar.

Nú hef ég ekki séð skýrslu héraðssaksóknara fyrir árið 2018, hún var ekki komin út síðast þegar ég gáði. En ég fékk einhvern veginn þá tilfinningu, alla vega út frá tölunum 2017, að ástandið hér væri jafnvel verra. Þetta er náttúrlega niðurbrjótandi á svo margan hátt, sérstaklega fyrir fórnarlömbin eða þolendur ofbeldisins sem treysta sér jafnvel ekki til að koma fram og kæra vegna þess að þau hafa séð í gegnum tíðina hversu fá mál enda fyrir dómi og að enn færri mál leiða af sér sakfellingu.

En auðvitað er mjór mikils vísir, herra forseti, og þess vegna er þessi tillaga góð og hún er nauðsynleg. Við þurfum að taka þær vísbendingar sem við erum að fá, og ekki bara vísbendingar heldur þær upplýsingar sem við erum að fá, um ofbeldi hvarvetna, ekki síst á þessari torfu hér, mjög alvarlega og bregðast við með afgerandi hætti til að við getum að lokum náð því markmiði, sem hér er sett fram svo metnaðarfullt, að uppræta alfarið kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni úr íslensku samfélagi.