150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég verð að halda áfram að dást að skapandi notkun tungumálsins. Nú vill svo til að ég er ekki með þessa bókun hér við hönd, hélt sannast sagna að við værum að ræða um það sem skiptir máli, sem væri efni þessa frumvarps. En hv. þingmaður leiðréttir mig ef það kemur ekki fram í minni bókun að tekið hafi verið tillit til fjölda athugasemda minni hlutans. Samt stendur hv. þingmaður hér upp og ber það upp á mig að ég hafi í minni bókun talað um að minni hlutinn hafi ekki haft neitt til málanna að leggja. Um þetta mál vannst, eins og með ótal þingmál á hverjum einasta þingvetri — ég hef tekið þátt í að vinna að þeim sem framsögumaður og einnig sem fulltrúi í minni hluta, að hlustað er á sjónarmið. Þau eru sum tekin inn, sum ekki. Síðan eru lögð fram frumdrög að áliti og annaðhvort næst meiri hluti um þau eða ekki, stundum er þeim breytt, stundum ekki. Það eina sem sker sig úr við þessa afgreiðslu (Forseti hringir.) sem ég þekki til er að minni hlutinn skuli vera svo móðgaður að hann þurfi að bóka sérstaklega um það. Það hef ég aldrei séð áður.