150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:15]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mikið er ég ánægð með að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hafi frumkvæði að því að vísa til Bandaríkjanna í þessu efni svo ég þurfi ekki að gera það. Það er einmitt það sem mér dettur helst í hug þegar ég les texta um hagsmunaverði, mér finnst þetta vera ansi bandarískt. En það virðist vera lenska meðal vinstri manna í Evrópu að sækja ýmsar reglur til Bandaríkjanna þessa dagana.

Ég hef margt við þetta ákvæði um hagsmunaverði að athuga en kem kannski að því seinna. En úr því að aðstoðarmennirnir eru mjög svo til umræðu langaði mig að velta því hér aðeins upp að frumvarpið gerir ráð fyrir að ekki séu birtar upplýsingar um aðstoðarmenn, skrifstofustjóra, sendiherra og fleiri, og er vísað til stjórnarskrárinnar og sjónarmiða þar að lútandi. En í nefndaráliti meiri hlutans er horfið frá þessu er varðar aðstoðarmennina sérstaklega. Mér finnst vanta frekari stjórnskipulega umfjöllun um af hverju menn telja sig til þess bæra að hafa sérstakar reglur um aðstoðarmenn þegar frumvarpshöfundar hafa metið það þannig að sérstök ákvæði stjórnarskrárinnar leiði til annarra.