150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:44]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því að í salnum er ekki neinn fulltrúi frá meiri hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og má þá segja að ég sé að halda uppi merki hennar með því að fara í andsvör við hv. þingmann, sem ég þakka fyrir skörulega og góða ræðu. Ég gæti kannski spurt í anda málflutnings hv. framsögumanns meiri hlutans áðan: Ertu sár? Mátti á honum skilja að þetta væri aðallega spurning um sárindi og sárar tilfinningar. Höfnunarkennd og eitthvað því um líkt. En ég ætla ekki að fara út í það.

Ég ætla að biðja hv. þingmann um að velta aðeins vöngum með mér yfir því hvernig gæti hugsanlega staðið á því að meiri hluti hv. nefndar skyldi ekki ljá máls á því að taka á þessu með aðstoðarmennina og snúningshurðarákvæðið. Hvernig stendur á því? Ég verð að játa að það er mér ráðgáta. Ég skil það ekki alveg. Og kannski þessu tengt, ég veit það ekki: Getur hugsast að það að hafa verið aðstoðarmaður ráðherra sé fyrir manneskju á besta aldri kannski eitt það mikilvægasta sem hægt er að hafa á ferilskránni þegar maður er að sækja um vinnu hjá hagsmunasamtökum?