150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Andrés Ingi Jónsson) (U) (andsvar):

Virðulegur forseti. Slík gæti hæglega farið leynt. Það fer í rauninni eftir því hvernig um hnútana er búið. Það sem ekki er skylt að tilkynna um eru skuldir og ábyrgðir við lánastofnanir ef fjárhæðin er undir 5 milljónum. Þannig að fyrirgreiðslan mætti ekki vera meiri en sem því nemur, nema ef auðjöfurinn í þessu ímyndaða dæmi lánaði t.d. vegna bifreiðar til eigin nota, húsnæðis til eigin nota, námslán. Hægt er að koma hærri fjárhæðum en 5 milljónum til fólks með því að leyfa skuldir á þessu sviði og það er veruleg hætta á því. Það er ekki bara hætta á því í þessu frumvarpi heldur er þetta nokkuð sem við þurfum að skoða varðandi hagsmunaskráningu þingmanna. Mér finnst einfaldlega að við getum byrjað að móta þær reglur í þessu frumvarpi þannig að þau lög, sem taka til æðsta lagsins í stjórnsýslunni, verði skýrari en þær reglur sem við erum með varðandi þingmenn. En þær munum við væntanlega taka til endurskoðunar næsta vetur með endurskoðun á siðareglum þingmanna. Þar að auki er svo sem ekkert að því að það séu ólíkar reglur um t.d. þingmenn og ráðherra. Í mörgum löndum er það þannig að grunnreglurnar um þingmenn gilda um alla. Svo eru viðbótarreglur því til fyllingar um ráðherra vegna þess að þeir bera einfaldlega meiri ábyrgð sökum stöðu sinnar í stjórnsýslunni. Þeir geta haft bein afskipti af málum sem snerta verulega hagsmuni fólks, sem, eins og við þingmaðurinn erum búnir að þefa uppi í þessu ímyndaða dæmi, getur átt hönk upp í bakið á þeim svo nemur hvaða fjárhæð sem er.