150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:45]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er í þeirri stöðu, eins og hv. þm. Andrés Ingi Jónsson, að þekkja störf aðstoðarmanna, þó frá þeim sjónarhóli að hafa verið ráðherra með aðstoðarmenn á mínum snærum. Hv. þingmaður getur ekki neitað því að hlutverk aðstoðarmanns í ráðuneyti er allt annað en starfsmanna ráðuneytisins, hvað þá ráðuneytisstjóra eða skrifstofustjóra í ráðuneyti. Aðstoðarmenn eiga að koma inn á algjörlega pólitískum forsendum og eru trúnaðarmenn ráðherra og ráðherra ber ábyrgð á sínum aðstoðarmönnum. Ég þori að fullyrða að flestir ráðherrar hljóta að spyrja aðstoðarmenn sína áður en þeir ráða þá til sín hvaða hagsmuni þeir kunna að hafa og þurfa að vera upplýstir um það og menn þurfa auðvitað að upplýsa sína ráðherra um það. En að leggja þá að jöfnu við æðstu stjórnendur í Stjórnarráðinu finnst mér algerlega út í hött og nefni það sem misskilning á eðli þessara starfa. Þeir hafa aðgang að tengslaneti. Það kann að vera að menn læri eitthvað og allir sem koma að störfum í ráðuneyti eins og öðrum störfum læra ýmislegt. Og það er sérstaklega tekið fram og menn viðurkenna það að aðstoðarmenn koma oft í stuttan tíma inn í ráðuneyti. Það að ætla að setja hömlur á störf slíks fólks myndi auðvitað verða til þess að draga úr því að menn gætu fengið aðstoðarmenn til fylgis við sig í þann tíma.

Ég spyr á móti: Vilja menn ekki frekar líta til þess sem ég hef stundum kallað „innleiðing innherjanna“ í Stjórnarráðinu? Það er fólkið á planinu sem sér í hvað stefnir, sér hvaða innleiðingar eiga að fara fram á næstu vikum, mánuðum og árum, veit hver þróunin er. Það er í ráðuneytunum í þennan tíma til að troða þessum innleiðingum í gegn sem sérfræðingar (Forseti hringir.) með ráðherra sínum og fer stuttu síðar út í sjálfstæð ráðgjafarstörf. Hvað með það fólk, fólkið á planinu?