150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:52]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tók dæmi af nýjum fréttum í dag um að hæstv. menntamálaráðherra hefði, eins og það er orðað, brotið jafnréttislög við skipun ráðuneytisstjóra. Fréttin er byggð á úrskurði kærunefndar jafnréttismála þar að lútandi. Ég þekki reyndar ekki úrskurðinn, ég held að hann hafi ekki enn verið birtur opinberlega, en í umfjöllun um þessi mál hefur verið bent á að um sé að ræða eitt af tugum mála í stjórnsýslunni og í stjórnkerfinu með þessari niðurstöðu. Mér þykir það mjög hæpin ályktun að draga af þessum fjölda mála að menn séu almennt með ásetningi, eins og það var orðað hér á þinginu, að brjóta reglur um jafnan hlut kynjanna við skipun í embætti. Ég held miklu frekar að þessi mikli málafjöldi beri þess vitni að lögin sem um þetta fjalla, þau ákvæði er fjalla um hæfnismat umsækjenda um stöðu og annað, séu bara eitthvað gölluð, í það minnsta framkvæmd þeirra á vegum nefnda eins og úrskurðarnefndar jafnréttismála. Ég held að allir hljóti að sjá að það þarf að skoða þessi mál og ég hvet þingið einmitt til að láta svona mál til sín taka þegar þau koma upp trekk í trekk og taka frumkvæði í því að skoða þessa löggjöf, og aðra, sem um það fjallar.

Hv. þingmaður spyr mig um skráningu símtala í ráðuneytum. Ég þekki svo sem ekki hvaða reglur hafa gilt um það, að ráðherra sjái ekki sjálfur um að skrá símtöl. Já, þetta gæti t.d. verið regla sem enginn fer eftir. Tilgangslaust hefur hún verið sett hér, hent inn í umræðuna, til þess að friða ákveðna umræðu og enginn fer síðan eftir henni, tilgangslaus regla.