150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:56]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, að sjálfsögðu tel ég að skrá eigi samtöl og ákvarðanir eða aðrar upplýsingar sem máli skipta og það er gert í Stjórnarráðinu. Það er hins vegar ekki gert með símtölum. Ég ætla ekki að fullyrða að þau símtöl sem ég tók í minni ráðherratíð megi telja á fingrum annarrar handar, en ekki þarf marga fingur til að telja símtölin sem ég tók almennt sem ráðherra. Samskipti fara bara fram með öðrum hætti í dag. Það væri kannski létt verk og löðurmannlegt að skrá öll símtölin en atriði sem skipta máli eru skráð, þau eru skráð í minnisblöðum. Þegar ráðherra tekur samtöl innan Stjórnarráðsins óskar hann eftir því að það sé skráð með minnisblaði. Þannig er skráningunni háttað. En að menn skrái einstök símtöl, ég held að það sé bara óraunhæft. Píratar festast alltaf í forminu, það er svo dæmigert fyrir þá að festast í forminu með skráningar á símtölum. Það er efnið sem skiptir máli, að það liggi fyrir, og það gerir það í minnisblöðum.