150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[18:59]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er skapi næst að segja að þetta sé barnaleg nálgun hjá hv. þingmanni, að reyna að gera lítið úr því sem ég er að benda á og draga fram. Sumar reglur eru bara þess eðlis að það kann að vera eitthvað að. Það kann að vera eitthvað að reglunum í stjórnkerfinu þegar það verður trekk í trekk þannig, þvert á alla pólitík, þvert á ráðuneyti og þvert á sérfræðinga, að verið er að brjóta þær. Þá kann eitthvað að vera að reglunum.

Auðvitað erum við ekki að tala um umferðarreglur. En úr því að hv. þingmaður nefnir umferðarreglur þá er einmitt reynt, þegar menn semja umferðarreglur, að vega og meta hversu auðveldlega fólk getur farið eftir þeim, t.d. þegar tekin er ákvörðun um að lækka hámarkshraða á götu niður í 30 km. Á sumum stöðum hefur það komið í ljós að það gengur ekki upp. Lögreglan sem veitir umsagnir um slíkan hámarkshraða gerir athugasemd við það að menn ætli að setja reglur sem kveði á um 30 km hámarkshraða á götu sem býður upp á meiri hraða. Að sjálfsögðu þarf að leggja mat á það hvort mönnum sé í fyrsta lagi bara lífsins mögulegt að fara eftir reglunum og einnig hversu mönnum er eðlislægt að fara eftir þeim. Ef við tökum jafn smásmugulegar reglur og umferðarreglurnar þá er það þannig.

Ég frábið mér málflutning hv. þingmanns og hann á að vera hafinn yfir það að ætla að bera það fram að ef einhverjir keyri yfir á rauðu ljósi þá eigi að afnema regluna. Staðreyndin er sú að það eru mjög fáir sem keyra gegn rauðu ljósi, mjög fáir. En ef það væri einhvers staðar þannig að 90% fólks á einhverjum tímapunkti keyra yfir á rauðu ljósi þá þarf að skoða af hverju það er. Það er alveg örugglega ekki af því að fólkið hafi þann ásetning að brjóta lög, það kann að vera að aðstæður bjóði ekki upp á að vera með rautt ljós eða að einhvers konar misskilningur sé í gangi. Það er það sem ég á við.