150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[19:02]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Talandi áfram um umferðarreglurnar þá er sá eðlismunur á umferðarreglum og þeim reglum sem við erum stundum að fylgja í stjórnsýslunni og Stjórnarráðinu, stjórnkerfinu, að umferðarreglurnar eru mjög skýrar. Þær veita ekkert svigrúm til mats, það er bara 30 km hámarkshraði. Það er hægt að mæla það. Svo er reyndar gefið smásvigrúm fyrir fólk til að fara aðeins yfir.

En margar af þeim reglum sem verið er að setja bjóða upp á endalausan ágreining. Mikill mannauður, mikill tími og mikill peningur fer í að þrefa um algjör smáatriði. 10. gr. stjórnsýslulaga: „… mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.“ Hver á að meta hvað er nægjanlegt? Það er bara látið í hendurnar á einhverju fólki úti í bæ eða dómstólum eða einhverjum nefndum. Þetta þarf allt að vera skýrara. Þegar menn rekast trekk í trekk á svona reglur þá þurfa menn að taka þær upp. Vandinn er þá reglurnar.

Ég ætla ekki að svara því hér hvort ég styðji frumvarpið. Ég gef afstöðu mína upp við atkvæðagreiðslu, en ég hvet þingmenn til að óska eftir því að málið fari aftur í nefnd.