150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[19:04]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér hafa verið haldnar góðar og innihaldsríkar ræður. Ég vil leyfa mér að vísa sérstaklega til ræðu sem hv. framsögumaður minni hluta hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hélt hér áðan, Andrés Ingi Jónsson, þar sem hann fór vel í gegnum það nefndarálit sem ég hef skrifað undir og ætla ég ekki að endurtaka það efnislega.

Spilling, málið snýst kannski um hana. Hún getur haft geðugan svip og hún er ekki alltaf ógeðslegt plott í skúmaskotum um einhver myrkraverk heldur getur spilling líka þrifist við kertaljós þar sem maður situr með lindarpenna. Spilling getur t.d. lýst sér sem greiðasemi við gömul skólasystkini, hún getur jafnvel lýst sér í fyrirgreiðslu við einhvern sem þarf á henni að halda. Sé maður í aðstöðu til þess styttir maður viðkomandi leið í gegnum eitthvert tiltekið ferli sem hjálpar viðkomandi. Spilling getur lýst sér í óformlegum ákvörðunum sem greiða fyrir og flýta fyrir málum. Hún getur lýst sér í því sem er dálítið ósýnilegt í íslensku samfélagi, en þegar ég var að alast upp hét það að vera í samböndum, að hafa sambönd. Þegar ég ólst upp voru enn þá leifar af íslenska haftasamfélaginu og þá snerist allt um að vera í samböndum, þekkja einhvern sem hafði aðstöðu til þess að greiða manni leið til að ná í einhver tiltekin gæði, ná kannski í timbur, skrúfur eða nagla ef verið var að byggja, vegna þess að allt var bundið einhverjum höftum, eða fá bíl eða lóð og þar fram eftir götunum. Þannig þróuðust ýmsir samskiptahættir í íslenska kunningjasamfélaginu, íslenska fyrirgreiðslusamfélaginu, íslenska sambandasamfélaginu sem ekki voru endilega allir ógeðugir í sjálfu sér. Menn iðkuðu í rauninni jafnvel dyggðir, þ.e. menn sýndu einhverjum ræktarsemi sem það átti skilið.

En þessum venjum getur fylgt, og fylgir ævinlega, að á endanum leiðir þetta til óvandaðrar stjórnsýslu; til þess að ákvarðanir eru teknar, ekki á málefnalegum forsendum heldur á einhverjum annarlegum forsendum, jafnvel vegna greiðasemi, vináttu eða tengsla. Það er svo mikilvægt að allt þetta liggi fyrir og sé uppi á borðum, að við vitum af því og að ekki sé verið að reyna að breiða yfir það og að við séum meðvituð um að þetta sé ekki góð leið til að taka ákvarðanir sem varða almannahag, að taka þær á forsendum fyrirgreiðslu, greiðasemi, kunningsskapar, vináttu eða gagnkvæmra hagsmuna, gagnkvæmrar greiðasemi.

Það er út af því sem við viljum reyna að koma einhvern veginn böndum á þetta. Um leið geri ég mér alveg grein fyrir því að það er ekkert auðvelt. Það er ekki auðvelt að ná utan um hið ósýnilega net sem við höfum hér í samfélaginu sem byggist á tengslum okkar, ættartengslum, skólatengslum, íþróttafélagatengslum, saumaklúbbatengslum, alls konar tengslum. Við erum sífellt að tala saman og við erum að gera það með óformlegum hætti. En við erum öll sammála um það að þetta þarf að liggja fyrir og við þurfum einhvern veginn að geta treyst því að það fólk sem hefur tekið að sér að taka ákvarðanir sem varða almannahag, hefur tekið að sér að setja okkur lög, starfi í almannaþágu, með almannahag að leiðarljósi en sé ekki að greiða götu einhverra vina og kunningja. Við erum sammála því, held ég flest, að ásýndin þarf að vera með þeim hætti að það veki traust, að það veki þá hugmynd að engin annarleg sjónarmið ráði för við að taka ákvarðanirnar.

Það þarf sem sagt að ríkja traust og viðhalda tiltrú eins og hv. framsögumaður minni hlutans sagði hér áðan, Andrés Ingi Jónsson, nema hvað að ég held að við séum enn þá á þeim stað í íslensku samfélagi — og ég held að það sé kannski eitt meinið sem við erum að fást við hér — að við þurfum að endurreisa tiltrú almennings á þeim stofnunum sem taka þær ákvarðanir sem varða þjóðina alla, endurreisa tiltrúna á Alþingi og endurreisa tiltrú á ríkisstjórninni, ráðherrunum, ráðuneytunum og stjórnkerfinu eiginlega eins og það leggur sig. Ég er nefnilega hræddur um að ekki hafi enn tekist að endurvekja það traust sem er svo nauðsynlegt að ríki í garð þessara stofnana. Þá er ég ekki að tala um að fólk þurfi endilega að vera mjög hrifið af þingmönnum eða þurfi jafnvel endilega að treysta þingmönnum sem manneskjum eða einstaklingum heldur hitt, að fólk treysti stofnuninni Alþingi.

Ég held reyndar að sú tiltrú hafi verið of mikil fyrir hrun, og mælingar sýna það raunar að ríkt hafi barnslegt traust þjóðarinnar til þings og stjórnvalda hverju sinni sem síðan hafi hrunið í hruninu vegna þess að það var ekki bara efnahagslegt hrun heldur líka siðferðilegt. Það var hrun á öllum gildum og á sjálfsmynd. Það var hrun á hugmynd þjóðarinnar um sjálfa sig og um það fyrirkomulag sem hér ríkti. Öll tiltrú á það allt saman hrundi og traustið hefur enn ekki verið endurreist. Kannski má segja að fyrir hrun hafi sú tiltrú almennings á þessum stofnunum verið allt of mikil en eftir hrun kannski of lítil. Vantrúin er svo alger og vantraustið svo gríðarlegt að það gerir jafnvel Alþingi erfitt um vik. Vantraustið er raunar þess eðlis að við það verður eiginlega varla unað. Ég held að það sé algjört forgangsmál fyrir alla stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir standa og hvort sem þeir starfa innan þings eða utan, að reyna að endurreisa það traust.

Þá komum við að því sem ég hef athugasemdir við í vinnslu frumvarpsins. Mér hefði þótt það ómaksins vert ef ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar innan þeirrar nefndar þar sem málið var unnið, hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hefðu lagt meira á sig til að ná saman um að vinna málið. Ég ætla ekki endilega taka undir orð hv. framsögumanns minni hlutans áðan, Andrésar Inga Jónssonar, og kalla það smælki sem þó náðist, en ég ætla heldur ekki að láta segja um mig það sem segir í þekktri sögu: Litlu verður Vöggur feginn. Mér þykir þetta ekki nóg og ég hefði viljað sjá þarna afdráttarlausari skref og kannski meiri vilja til þess að nálgast sjónarmið minni hlutans í málinu vegna þess að ég held að ef hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði komið einhuga og saman með álit í málinu, sem varðar svo mikið ásýnd og traust, hefði það verið ómaksins vert.

Ég ætla ekki að fara út í einstök atriði en mig langar þó, í sambandi við álitamál um hvort eftirlitið eigi að vera á hendi forsætisráðherra eða sjálfstæðrar eftirlitsnefndar, að taka undir það sem hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir benti réttilega á áðan, að það má vel vera að margir þingmenn beri mikið traust til núverandi hæstv. forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, og það maklega, og telji að hún sé ekki líkleg til að misbeita valdi sínu hvað þetta varðar. En það er mikilvægt að hafa í huga að það kemur forsætisráðherra eftir þennan og það er mikilvægt að við reynum að vanda okkur við að setja reglur og látum þær ekki miðast endilega við mannkosti eða ókosti tiltekinna einstaklinga heldur reynum að hafa reglurnar og reglugerðirnar sem vandaðastar.

Ég vil líka minna á það, og það er alveg eðlilegt, að í hvert sinn sem ný ríkisstjórn er mynduð byggir nýr forsætisráðherra upp ákveðið valdanet í kringum sig og kemur með alla sína aðstoðarmenn inn í ráðuneytin og raðar fólki í kringum sig sem forsætisráðherra hverju sinni telur líklegt að starfi í anda þeirra hugsjóna og ætlunarverka sem hann hefur. Allt er það fullkomlega eðlilegt, en það er kannski ekki eðlilegt að viðkomandi ráðherra hafi þá eftirlitshlutverk gagnvart nákvæmlega þessu fólki vegna þess að tengslin eru þegar orðin of náin. Ráðherrann er jafnvel háður aðstoðarfólki sínu um smátt og stórt. Þarna er kannski um að ræða vináttu og tengslin eru þess eðlis að það væri eðlilegra að slíkt eftirlit kæmi utan frá. Mér finnst það satt að segja einhvern veginn blasa við.

Talandi um títtnefnda aðstoðarmenn og snúningshurðina, það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þm. Sigríði Á. Andersen áðan, að aðstoðarmenn hafa kannski ekki völd. Það fer eftir hvernig maður skilgreinir völd, þeir hafa ekki formleg völd og þeir koma og fara. En af því að við erum að tala um snúningshurð þá hafa aðstoðarmenn möguleika á því að opna dyr. Þeir opna dyr inn í svæði þar sem ákvarðanir eru teknar hverju sinni og þeir hafa ómetanlegan aðgang að valdinu. Þeir hafa aðgang að ákvörðunum og aðgang að þeim svæðum þar sem ákvarðanir eru teknar. Þeir geta opnað dyr fyrir hagsmunaaðila þar inn. Mér finnst það eðlileg krafa — ég veit að hún er kannski dálítið ströng og hún getur jafnvel orðið til þess að mjög hæfur einstaklingur hugsi sig tvisvar um áður en viðkomandi samþykkir að gerast aðstoðarmaður ráðherra — að sá sem er aðstoðarmaður ráðherra hinkri dálítið áður en viðkomandi fer að vinna fyrir hagsmunasamtök sem eiga kannski mikið undir því, kannski ríka hagsmuni undir því, að hafa góðan aðgang að þeim svæðum þar sem ákvarðanir eru teknar sem varða starfsemi viðkomandi aðila. Það sýnist mér blasa við og mér þykir það miður að þetta tvennt skyldi ekki hafa ratað í endanlega gerð frumvarpsins.