150. löggjafarþing — 112. fundur,  2. júní 2020.

varnir gegn hagsmunaárekstrum hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvalds í Stjórnarráði Íslands.

523. mál
[19:22]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér fannst skemmtilegt að heyra hv. þingmann láta hugann reika aftur í tímann og rifja upp öll samböndin, það er alveg rétt hjá honum. En ég held að lýsing hans á aðstæðum áður fyrr sé jafnvel skiljanlegri en nokkurn tímann það tungutak sem menn nota í dag og vilja binda í skrifræðisbáknið. Auðvitað snýst þetta einmitt um það að fólk þekkir mann og annan, allir þekkja einhvern. Í okkar litla samfélagi er það þannig, sem betur fer. En ég velti því hins vegar fyrir mér hvort hv. þingmaður trúi því virkilega að traust á stjórnmálum eða stjórnmálamönnum verði endurreist með skrifræði.

Í raun fjallar umrætt frumvarp, eins og það er úr garði gert, nánast eingöngu um börn stjórnmálamanna og aðstoðarmenn ráðherra, t.d. um það sem hv. þingmaður vék að, þ.e. að þegar störfum aðstoðarmanna lýkur í Stjórnarráðinu séu sett takmörk fyrir því að þeir fari að vinna tiltekin störf í sex mánuði. Auðvitað hefur það kannski litla praktíska þýðingu vegna þess að flestir hafa sex mánaða uppsagnarfrest, það hafa svo sannarlega skrifstofustjórar og ráðuneytisstjórar. Ég þekki reyndar eiginlega engin dæmi um að menn hafi farið úr hlýjum faðmi ríkisins, úr æviráðningunni nánast að kalla, úr embætti ráðuneytisstjóra eða skrifstofustjóra, yfir í atvinnulífið. Frumvarpið kemur kannski ekki alveg í veg fyrir það en það er ekki beinlínis hvetjandi fyrir menn að fara út í atvinnulífið ef þeir eiga yfir höfði sér svívirðingar og að vera stjaksettir fyrir fyrri störf sín í Stjórnarráðinu.

Hér er verið að ala á tortryggni. Það er vandinn sem mér finnst vera við þetta frumvarp. Ég spyr hv. þingmann hvort hann geti ekki verið sammála mér um að hætt sé við því að stjórnmálamenn verði þrælar skrifræðisins í þessu.