150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

um fundarstjórn.

[15:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Herra forseti. Ég kem hér upp til að kvarta líka yfir svarleysi frá ráðherrum og ráðuneytum. Ég tek undir það með hv. þm. Ólafi Ísleifssyni að það sé svolítið óheppilegt að dómsmálaráðherra snupri þingið með þessum svörum sínum. Þann 17. desember 2019 var samþykkt skýrslubeiðni varðandi aðdraganda og afleiðingar óveðursins 9.–11. desember. Forsætisráðherra átti að vinna þá skýrslu en ekkert hefur spurst til hennar. Síðan voru samþykktar 13. mars 2020 spurningar sem ég beindi til hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra varðandi eftirlit með samruna fyrirtækja. Þetta var 13. mars. Ekkert hefur spurst til svara við þessum spurningum og þetta voru ekki flóknar spurningar sem þarna voru settar fram. Í þriðja lagi, virðulegi forseti, var spurt 26. mars um fjölda starfsmanna ríkisins sem láta af störfum fyrir aldurs sakir. Þeirri spurningu var beint til hæstv. fjármálaráðherra. Ég beini því til hæstv. forseta að hnippa í ráðherra og ráðuneytin þannig að við fáum svör við þessum spurningum því að þeim spurningum sem hér eru nefndar er tiltölulega einfalt að svara.