150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

atkvæðagreiðsla með yfirlýsingu, svör við fyrirspurnum.

[15:12]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Í 80. gr. þingskapa segir, með leyfi forseta:

„Þá er forseti hefur ástæðu til að ætla að allir séu á einu máli eða úrslit máls séu ljós fyrir fram má hann lýsa yfir því að gert sé út um atriði án atkvæðagreiðslu ef enginn þingmaður krefst þess að hún fari fram og skal þá sú yfirlýsing forseta koma í stað atkvæðagreiðslu.“

Það felst í því mjög mikið vald að forseti geti bara sleppt því að láta atkvæðagreiðslu fara fram á þingi. Hann þarf ekki að láta greiða atkvæði um mál, hann lýsir því bara yfir einn og óstuddur að atriðið sé samþykkt. Þó er búið að setja hér inn „hefur ástæðu til að ætla að allir séu á einu máli eða úrslit máls séu ljós fyrir fram“.

Þannig hefur þetta alltaf verið og nú fékk forseti heimild hjá þingflokkunum til að fara í það Covid-málinu að taka mál saman, breytingartillögur og svoleiðis, til að auðvelda fyrir, og hann ætlar að halda í það vald áfram. Þetta gengur ekki. Forseti verður að lýsa því yfir að við förum aftur í sama horf og að hann hirði ekki það vald og haldi ekki í það vald sem hann fékk vegna Covid, þær undanþágur sem við gáfum honum vegna Covid. Ég sé ekki betur en það sé brot á þingsköpum ef þingforseti ætlar að halda þessu til streitu. (Forseti hringir.) Ég er búinn að lýsa því yfir að hann hefur ekki þennan stuðning.