150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

atkvæðagreiðsla með yfirlýsingu, svör við fyrirspurnum.

[15:15]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það er að verða útbreiddur ósiður meðal ráðherra að svara ekki fyrirspurnum sem til þeirra er beint af þinginu. Nú er það þannig að ég verð að vekja athygli á því sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson sagði áðan, að eftir að forseti er búinn að samþykkja að fyrirspurnir standist form fyrirspurna þá tekur hæstv. dómsmálaráðherra það upp hjá sjálfri sér að ákveða það einhliða að fyrirspurnirnar séu of víðfeðmar og ekki sé hægt að svara þeim. Þetta er óþolandi, herra forseti. Þarna gengur framkvæmdarvaldið freklega á rétt Alþingis. Ég ætlaði helst ekki að koma hér upp og minnast enn einu sinni á fyrirspurn um Íbúðalánasjóðseignirnar sem hafa komið hér fram sjö sinnum en ég verð að gera það aftur, forseti, vegna þess að það bólar ekkert á svari við þeim. Það er hálfur mánuður eftir af þessu þingi og ég sé ekki að það klárist fyrr en að full svör liggja fyrir við þessum fyrirspurnum. Það er alla vega alveg klárt að hér verður staðið við. Þó svo að við megum ekki fara í samsvör hver við annan er hægt að fara í drjúg ræðuhöld til að koma í veg fyrir það að þessu þing ljúki áður en þessum fyrirspurnum er svarað.