150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

atkvæðagreiðsla með yfirlýsingu, svör við fyrirspurnum.

[15:22]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir áhyggjur þingmanna hér af svarleysi eða hversu seint ríkisstjórnin svari. Ítrekað er verið að biðja um frest á frest ofan vegna fyrirspurna og starfsfólki í ráðuneytum hefur vel að merkja ekki fækkað. Því hefur fjölgað á síðustu árum þannig að ekki er hægt að skýla sér á bak við mannaflsleysi innan ráðuneytanna. Þannig að mér finnst þetta viðhorf sem kemur frá ríkisstjórninni og þingmönnum meiri hlutans, í þá veru að gera lítið úr fyrirspurnum þingmanna stjórnarandstöðunnar eða gera lítið úr skýrslubeiðnum þingmanna, einfaldlega ekki við hæfi. Mér finnst það sýna vanvirðingu og fara m.a. þvert gegn því sem stendur í ríkisstjórnarsáttmálanum um að efla veg og virðingu Alþingis. Ég vil beina því sérstaklega til hæstv. forseta og mig langar að fá að vita það, er sjálfkrafa veittur frestur þegar ríkisstjórnin og ráðherrar biðja um frest á fyrirspurnum? Er hann sjálfkrafa veittur eða eru einhverjar reglur til um það (Forseti hringir.) hvernig við hér á þinginu getum sinnt eftirlitshlutverki okkar betur?