150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

atkvæðagreiðsla með yfirlýsingu, svör við fyrirspurnum.

[15:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að koma hér upp aftur en af því að ég sé að hæstv. fjármálaráðherra er svo glaður yfir þessari umræðu langaði mig til þess að auka gleði hans enn og inna hann eftir fyrirspurn sem ég setti fram fyrir nokkrum mánuðum um tekjur ríkisins af virðisaukaskatti af viðskiptum með lyf, þ.e. lyfseðilsskyld lyf. Maður hefði haldið að þetta væri einfalt því að nóg er til af einhverjum gaurum uppi í fjármálaráðuneyti sem kunna á excel, það höfum við orðið vör við hérna í gegnum tíðina. Þannig að þessi gleði og kátína ráðherrans bara hvatti mig til að beina þessari fyrirspurn til hans prívat og persónulega aftur og biðja hann um að skila svörum við þessari fyrirspurn sem eru nokkuð mikilvæg og gera það sem fyrst þannig að við þurfum ekki að koma hér upp aftur og aftur til að tala um sömu hlutina við ríkisstjórnina sem ætlaði að efla veg Alþingis.