150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

breyttar reglur um móttöku ferðamanna.

[15:43]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Fyrir um klukkustund síðan var haldinn fyrsti kynningarfundur um breyttar reglur er varðar móttöku ferðamanna sem taka gildi eftir viku. Af því tilefni kvikna fjölmargar spurningar um framkvæmdina sem ég vil bera upp við hæstv. heilbrigðisráðherra.

Fram kom að ferðafólk hefði val um að fara annaðhvort í tveggja vikna sóttkví eða kaupa sér sýnatöku, en þeir sem fara í sýnatöku þurfa ekki að fara í sóttkví á meðan beðið er.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Stendur þetta verkefni og fellur með því að við fáum hingað fáa ferðamenn? Afkastageta er sögð vera 2.000 sýni á sólarhring samtals hjá Landspítala og Íslenskri erfðagreiningu. Ég spyr hæstv. ráðherra: Eru þar með talin sýni þeirra sem kunna að koma með Norrænu? Það ágæta skip tekur 1.400 farþega. Hvað með þá sem koma með flugi á Akureyri? Hvað með íslenska ferðalanga? Geta þeir valið að fara frekar í ókeypis sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu en borga 15.000 kr. við landamærin? Geta ferðamenn jafnvel líka pantað sér ókeypis sýnatöku hjá Íslenskri erfðagreiningu?

Landlæknir benti réttilega á veikleika á fundinum fyrr í dag varðandi ófullnægjandi húsnæði og ónógan fjölda heilbrigðisstarfsfólks. Telur hæstv. ráðherra það líka vera áhyggjuefni? Hvað með þær valkvæðu aðgerðir sem hefur nú verið verið frestað mánuðum saman? Verður þeim áfram slegið á frest vegna þessa verkefnis, þessarar sýnatöku sem verður á landamærunum?

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra í fyrri umferð: Hvernig sér hún fyrir sér að tekið verði á áhöfnum flugvéla og farþegaskipa sem og ferðafélögum í umræddum farartækjum ef ferðamaður greinist sýktur af kórónuveirunni? Fá allir þeir inni í sóttvarnahúsi sér að kostnaðarlausu? Hver greiðir laun áhafnarmeðlima sem þurfa að fara í sóttkví og annarra sem þurfa að fara í sóttkví vegna þessa ferðalags?