150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

breyttar reglur um móttöku ferðamanna.

[15:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er náttúrlega verið að vinna að svörum við mörgum þeirra spurninga sem hér koma fram hjá hv. þingmanni. Hver einasti dagur er þrunginn spurningum og svörum sem eru í raun og veru hluti af umhverfi þessa verkefnis. Hæstv. forsætisráðherra greinir frá því í dag að sýnin verði ekki geymd í sjálfu sér en því er þó haldið til haga að tölfræðilegar upplýsingar verða varðveittar vegna þess að þær kunna að vera mikilvægar til að byggja ákvarðanir á þegar fram líða stundir.

Hv. þingmaður spyr líka um það fólk sem bíður eftir niðurstöðu, hvort það sé stopp, hvort það sé útilokað frá almenningssamgöngum o.s.frv. Meiningin er sú, eins og fram hefur komið á fundum hingað til, að á meðan fólk bíður eftir niðurstöðu vegna sýnatöku er gert ráð fyrir því að það hafi hægt um sig, ef svo má að orði komast, það skrái sig inn á hótelherbergi eða hvað það er og bíði eftir því að niðurstaða úr sýnatöku berist. Ég vona að hv. þingmaður haldi (Forseti hringir.) þessum fyrirspurnum öllum til haga þegar ég hitti hv. (Forseti hringir.) velferðarnefnd á næstu dögum.