150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ef ég skil rétt, hv. þingmaður kemur kannski inn á það í síðara svari, þá er ekki ljóst hvort það þurfi þessi 15 stöðugildi. Er hugsanlegt að þau verði færri? Ég fagna því vissulega að það er endurskoðunarákvæði eftir þrjú ár. Það sem mér finnst vera sérkennilegt við þetta, eins og ég nefndi og kemur fram í minnihlutaáliti hv. þm. Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, er að gert er ráð fyrir auknum umsvifum og auknu álagi hjá öðrum stofnunum sem tengjast þessu frumvarpi, en þar þarf ekki að fjölga starfsmönnum. Hins vegar þarf að fjölga hjá sjóðnum um 15 stöðugildi.

Herra forseti. Ég er mjög fylgjandi þessu máli en ég á erfitt með að styðja það að fjölga um 15 stöðugildi, í ljósi efnahagsástandsins í þjóðfélaginu og ráðdeildarsemi í ríkisfjármálum, sitjandi í fjárlaganefnd. Það eru aukin útgjöld um 150 millj. kr. á ári. Það er bara mjög erfitt fyrir mig að styðja þetta mál á þeim forsendum þó að það sé margt gott í frumvarpinu.

Ef hv. þingmaður gæti komið inn á það að það verði metið og það komi fram að hugsanlega sé ekki þörf fyrir þetta mörg stöðugildi. Það er töluverður munur á t.d. fimm stöðugildum eða 15, svo að dæmi sé tekið. Ef hv. þingmaður gæti farið nánar út í það.