150. löggjafarþing — 114. fundur,  8. júní 2020.

siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu.

634. mál
[18:21]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni andsvarið. Þingmaðurinn minntist á fíknisjúkdóma og ég nefndi einmitt í ræðu minni áðan einstaklinga sem eiga við fíknisjúkdóma að stríða, að það væri einmitt sá hópur sem við þyrftum sérstaklega að horfa til þegar ákvarðanir eru teknar, m.a. vegna eðlis sjúkdómanna og hvernig sjúkdómarnir leika þá einstaklinga sem eiga við þá að glíma. Við þurfum því að horfa sérstaklega á þá hópa og hvað þeir eru í viðkvæmri stöðu.

Ég er hins vegar ekki sammála þingmanninum um það að hæstv. heilbrigðisráðherra standi ekki með opinn faðminn gagnvart þeim aðilum sem reka þessi úrræði. Ég veit ekki betur en að á Íslandi séu það fyrst og fremst, eða að langstærstum hluta til, félagasamtök og líknarfélög sem reka meðferðarstarf fyrir fólk í fíknivanda eða með fíknisjúkdóma. Þó að við getum auðvitað haft á því mismunandi skoðanir hvenær er nóg að gert eða hvar í röðinni við eigum að forgangsraða meiri fjármunum til þessara samtaka þá er það langt í frá að einhver óvild sé í garð þessara samtaka. Ég held að það sé alls ekki. Þvert á móti höfum við ítrekað sýnt það, bæði í fjárlögum og annars staðar og eins í orðræðunni hér á þingi, að menn bera mikla virðingu fyrir þeim samtökum og því góða starfi sem þau vinna.