150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

vörumerki.

640. mál
[15:41]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Varað hefur verið við því í marga áratugi að útvíkkun hugverkaréttar sé hættulegt fyrirbæri sem verði hættulegri eftir því sem hún er látin viðgangast lengur. Ef maður horfir aftur til fortíðar og fyrstu hugverkaréttindalaga er yfirleitt talað um „Statute of Anne“, eða löggjöf Önnu drottningar í Bretlandi, sem mig minnir að hafi verið sett árið 1710. Með henni var höfundum veittur einokunarréttur á útgáfu bóka og verka eftir þá. Þetta þótti nokkuð eðlilegt þó svo að á þeim tíma hafi markmiðið með þeim lögum ekki verið að tryggja höfundum réttindi heldur að tryggja krúnunni getu til að ritskoða prentað mál. Það hefur síðan þróast töluvert mikið og væri hægt að rekja það í stuttu eða löngu máli. Skrifaðar hafa verið ansi margar og þykkar bækur um það viðfangsefni.

Í dag er hægt að tala um hugverkarétt fyrst og fremst sem þrenns konar mismunandi réttindi, þ.e. höfundarétt, einkaleyfi og svo vörumerki. Því miður er ákveðin tilhneiging til að blanda þessu öllu og rugla saman, en þetta er allt saman mjög ólíkt hvert öðru. Svo ég útskýri það gróflega er höfundaréttur nokkuð sem fólk fær sjálfkrafa um leið og það býr til eitthvað sem ætlað er til útgáfu. Maður þarf ekki að skrá neitt eða gera neitt til að fá höfundarétt, maður fær hann bara sjálfvirkt. Höfundaréttur gildir út alla ævi manns og svo 70 ár í viðbót, reyndar styttra hjá fyrirtækjum. Rökin fyrir höfundarétti hafa alltaf verið þau að reyna að hvetja fólk til að búa til fleiri hluti, þó svo að það stemmi í raun ekki við þennan lífstíðarrétt plús 70 ár, vegna þess að dauðinn er sá tímapunktur í lífi hvers manns þar sem ekkert afl í tilverunni gæti hvatt hann til að framleiða fleiri höfundarverk. En það er önnur umræða.

Einkaleyfi eru aftur á móti töluvert takmarkaðri í tíma og gilda um uppfinningar eða í mörgum tilfellum aðferðir sem kallaðar eru á ensku, með leyfi forseta, „business methods“, aðferðir við að gera eitthvað, og í auknum mæli uppfinningar á borð við lyf og slíkt. Svo er núorðið til útvíkkun á þessu til að ná yfir hluti eins og tiltekin erfðaefni og álíka. Þannig má t.d. finna bakteríur sem einkaleyfi er á.

Svo er þriðji parturinn, sem þetta frumvarp snýst um, og það eru vörumerki. Vörumerkjaréttur er sá hluti sem er bæði auðveldast og erfiðast að réttlæta, þ.e. að ákveðin eigindi sem fólk skynjar séu í eigu tiltekinna einstaklinga eða fyrirtækja í þeim tilgangi að aðgreina þau frá öðrum. Þegar vörur eru með merki frá Nike, McDonald's eða Facebook eða hvað það er, og einnig mætti nefna einhver íslensk vörumerki, er fólki alveg ljóst að þetta eru vörur frá þeim aðilum.

Að vísu, ef maður horfir á hvernig framþróun vörumerkjaréttar hefur verið í gegnum tíðina, þá hefur hann kannski fyrst og fremst verið notaður af stærri fyrirtækjum sem þegar eru í einokunarstöðu á markaði til að koma í veg fyrir að einokunarstöðu þeirra sé haggað. Ef maður horfir t.d. á muninn á stærri framleiðslufyrirtækjum sem allir þekkja og svo t.d. kebabbúllum eða pítsufyrirtækjum þá eru þau síðarnefndu yfirleitt ekki með vörumerki í lógói sínu eða nafni. En þeim tekst samt sem áður ágætlega að stunda samkeppni sín á milli. Það er eingöngu þegar fyrirtæki er komið í yfirburðastöðu á markaði að vörumerkjaverndin verður í rauninni mikilvægur partur af því að verja eiginleika fyrirtækisins.

Það er í því samhengi sem þarf að skoða þetta afleita frumvarp. Þetta er afleitt frumvarp, byggt á afleitri hugmynd sem kom frá Evrópusambandinu. Og ég segi eins og hv. þm. Jón Þór Ólafsson áðan; Evrópusinnar á borð við mig eru oft gagnrýnir á Evrópusambandið vegna þess hversu mikið þeir sem vilja útvíkka einokunarrétt á hugmyndum fá að leika lausum hala þar, fá að hafa mikil áhrif á hvernig lög eru sett o.s.frv. Það er meira að segja svo slæmt að einn af mörgum börum innan Evrópuþingshússins í Brussel hefur af mörgum verið kallaður „Mickey Mouse“-barinn, með leyfi forseta, eða Mikka mús-barinn, vegna þess hvað þar eru að jafnaði margir lobbíistar frá fyrirtækjum á borð við Disney sem sitja um þingmenn. Þetta er víðtækt og vel þekkt vandamál í Evrópusambandinu.

Þá komum við að því sem frumvarpið á að útvíkka. Það eru hlutir eins og lykt og bragð og að einhverju leyti að litir og skynjun lita sé áhugavert fyrirbæri. En þegar við tölum um lykt verðum við að átta okkur á því að lykt er nokkuð sem breytist eftir hitastigi, eftir rakastigi, einstaklingar skynja lykt á mismunandi hátt og sú skynjun er breytileg eftir aldri, kyni og arfgerð og reyndar ýmsum öðrum þáttum, svo sem hvað maður borðaði í hádegismat eða hvort maður hefur verið með kvef nýlega. Allt þetta gerir að verkum að maður þarf að finna einhvers konar hlutlæga mælikvarða á það hvað er tiltekin lykt. Það er mjög flókið. Það er gríðarlegt flækjustig sem fylgir því. Á maður að fara í litrófsgreiningu á efnunum sem framkalla lyktina? Ef svo er, hver eru viðmiðin fyrir stöðugleika í framleiðslu? Leikfangafyrirtækið Hasbro hefur t.d. fengið vörumerkjarétt á lyktinni af Play-Doh deiginu í Bandaríkjunum og líklegast í Evrópu líka, ég þekki það ekki alveg. En þá má spyrja: Er framleiðslan á Play-Doh deiginu nægilega nákvæm til að hægt sé að tala um tiltekna lykt sem framkallar tiltekna lyktarsvörun frá ákveðnu efni, eða er þetta það laust í reipunum að það nái yfir töluvert breiðan flokk efna? Þá er nákvæmni mælinga orðið mjög alvarlegt atriði.

Hv. þm. Jón Þór Ólafsson nefndi áðan pisco, en pisco er drykkur sem er framleiddur á mjög ónákvæman hátt. Það er bara eðli málsins samkvæmt. Sama má segja um viskí og ýmsa aðra drykki sem ekki eru búnir til við fullkomlega stýrðar kringumstæður. Þeir eru t.d. látnir eldast í eikartunnum og eikartunnur eru ekki allar eins, það gefur augaleið. Á fyrirtæki þá bara að fá vörumerkjarétt á öllu rófi hugsanlegra efna sem gætu framkallað lykt sem hugsanlega gæti skilist sem einhver afurð frá þessu tiltekna fyrirtæki? Eða á þetta að vera nákvæmara? Það hefur ekki verið skýrt með hvaða hætti það á að vera.

Svo mætti tala um önnur efni og aðrar lyktir. Chanel N°5 er þekkt úti um allan heim og sömuleiðis piparminta, vel þekkt. Árið 2013 sótti fyrirtækið G. Pohl-Boskamp GmbH & Co. KG í Þýskalandi, að ég tel, um þessa ákveðnu tegund af einokunarleyfi, þ.e. vörumerkjarétt á lykt, fyrir piparmintulykt. Þá kom upp áhugavert vandamál. Það eru nefnilega til ákveðin virknisviðmið þegar þessi einokunarleyfi eru afhent og virknisviðmiðið, eða, með leyfi forseta, „functionality doctrine“, gerir það að verkum að lyktin verður að hafa einhverja virkni í skilningi þess að fólk verður að geta fundið lyktina. Lyktleysa getur t.d. ekki fallið undir vörumerkjarétt. Aftur á móti má lyktin ekki hafa hlutverk. Það sem kom upp úr krafsinu varðandi þetta er að piparmintulykt eflir virkni lyfja sem virka við tilteknum sjúkdómi, sem ég þekki ekki íslenska nafnið á en heitir á ensku, með leyfi forseta, „angina“. Virkniviðmiðið gerir það að verkum að það getur verið mótsögn í vörumerkjarétti varðandi lykt og sú mótsögn hverfur ekkert fyrr en eðli lyktar breytist, sem ég á ekki von á að gerist á næstunni.

Svo getum við talað um liti. Ljóst er að fólk er með mismunandi litaskynjun, ég nefni fólk með mismunandi litblindu. En það er líka ljóst að litaskynjun breytist líka með aldrinum, er mismunandi að einhverju leyti eftir arfgerð og jafnvel kyni. Við vitum að þegar maður talar um lit, t.d. græna litinn eða þann bláa sem eru hér á veggjum þingsalarins, erum við í raun að tala um rafsegulsvörun frá tilteknum atómum í málningunni sem geisla frá sér rafsegulbylgjum, rafsegulgeislun, á tiltekinni blöndu tíðna. Hvítur litur er t.d. ekkert annað en full svörun, þ.e. allar mögulegar tíðnir innan sýnilega rófsins og svartur er í rauninni skortur á lit. En þegar við erum að tala um tiltekna bylgjusamsetningar þá býr auga mannsins ekki yfir nema ákveðið mikilli nákvæmni og sú nákvæmni hefur meira að segja breyst í gegnum tíðina, eins og við vitum. Það hefur breyst hvaða liti fólk þekkir. Bláir litir höfðu yfirleitt bara eitt eða tvö nöfn í flestum tungumálum þangað til fyrir nokkuð hundruð árum. Þetta hefur þróast mjög hratt, það hefur jafnvel með einhverja menningarlega þætti að gera hvaða litir eru til.

Við verðum að horfa á málið með hliðsjón af þessu þegar við tölum um að gefa fyrirtækjum einokunarrétt á tiltekinni svörun innan rafsegulrófsins. Að vísu gerum við það svo sem nú þegar gagnvart símafyrirtækjum og öðrum sem vilja stunda útvarpsútsendingar eða sjónvarpsútsendingar eða álíka. En hérna erum við að tala um sýnilega rófið, það róf sem mannsaugað nemur. Við verðum að skoða þetta í því samhengi að það yrði afskaplega slæmt ef öll blæbrigði af rauðum yrðu allt í einu í einkaeigu ákveðinna fyrirtækja.

Herra forseti. Ef ég tek þetta saman þá er gríðarlegt flækjustig sem fylgir þessu. Og það sem verra er, er að þessir hlutir hafa takmarkað framboð að hluta til vegna þess að næmni mannsins nær bara upp að vissu marki, og næmni mælitækja til að átta sig á því hver á hvaða tiltekin afbrigði er ekki fullkomin. Þetta er þannig séð í gargandi andstöðu við t.d. hugverkarétt þar sem við vitum að hægt er að raða orðum saman á óteljandi mismunandi vegu og fá út ólíkar bækur. Það er ekki hægt að segja að höfundaréttur sé jafn takmörkuð auðlind og lykt eða ljós, hvað þá bragð, bragð er náttúrlega bara tiltekið afbrigði af lykt.

Þegar við ætlum að útvíkka svona réttindi á þennan hátt, svona flókin réttindi sem menn misskilja nú þegar mjög mikið, láta þau ná yfir heilar auðlindir sem við njótum með augum og nefi á hverjum einasta degi, þá verðum við að spyrja: Fyrir hvern er þetta? Hvaða hlutverki gegnir þetta í samfélagi okkar? Erum við að verja réttindi sem einhver hefur raunverulega áunnið sér með réttmætum hætti? Hefur Hasbro t.d. áunnið sér réttindi á ákveðinni tegund leirs? Er eðlilegt að segja að tilteknar fatabúðir eigi rétt á því að eiga tiltekna lykt? Og litir, það yrði frekar leiðinlegt ef ýmsir litir myndu hverfa úr augsýn nema þegar þeir væru hluti af vörumerkjum. Það verður alltaf viðleitni hjá þeim sem vilja eiga raunveruleikann til að útvíkka hugverkaréttindi á þann hátt að þeir eignist meira og meira af raunveruleikanum. En þar til fólk fer að átta sig á því hversu hættulegt þetta er og byrjar að sporna gegn því mun þetta halda áfram.

Það er alveg hægt að gera grín að þessu frumvarpi og mér fannst það nokkuð vel gert áðan, að hæðast að því hvernig lykt stjórnmálaflokkar myndu reyna að fá einokunarrétt á, en í alvöru talað þá snýst þetta um svo miklu meira en það. Ef við hefðum verið aðeins snjallari fyrir 100 árum eða 50 árum þegar verið var að búa til WIPO-samningana sem liggja til grundvallar höfundarétti og einokunarrétti á hugmyndum, þ.e. einkaleyfum, hefðum við kannski gert grín að þeim hugmyndum og jafnvel hugsanlega sagt nei við þeim. En það verður ekki gert hér. Að hluta til er það vegna þess að þetta er Evróputilskipun og okkur ber að taka þátt í því samstarfi. Gott og vel. Hér hefði verið afskaplega gagnlegt fyrir Ísland að hafa haft sæti við borðið og geta sagt nei.

Það er kannski annað sem er stærra mál vegna þess að þeir sem ýta á þessi réttindi eru fyrst og fremst fjölþjóðleg fyrirtæki, fyrirtæki sem eiga allt sitt undir því að eiga stærri og stærri skerf af raunveruleikanum með hverjum deginum sem líður. Þá er það ekkert annað en fjölþjóðleg samstaða á pólitíska sviðinu sem getur spornað gegn því. Á meðan stjórnmálamenn á Íslandi og í öllum öðrum löndum eru ekki meðvitaðir um það hversu hættuleg þróun þetta er þá mun hún halda áfram. Þrátt fyrir að ég sé Evrópusinni og vilji endilega meira samstarf við Evrópu og við heiminn allan þá mun ég segja nei við þessu frumvarpi vegna þess að þetta er vond þróun. Ég bið alla hv. þingmenn um að átta sig á því hversu hættulegt það er þegar eign á alheiminum og raunveruleikanum fellur í hendur örfárra fyrirtækja.