150. löggjafarþing — 115. fundur,  9. júní 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[16:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ekki ætla ég að segja að ég sé sérfræðingur í hugbúnaðarmálum, ég veit ekki hvernig ég á að svara varðandi þennan opna hugbúnað. En við erum með lög í landinu, við settum persónuverndarlög árið 2018 þannig að ég reikna með að farið sé eftir því sem þar stendur varðandi málið eins og varðandi öll lög. Í umsögn Persónuverndar er það nokkuð skýrt. Hún gerir í sjálfu sér ekki efnislegar athugasemdir við framsetningu málsins og hvernig það er hugsað út frá persónuverndarsjónarmiðum og persónuverndarlögum, heldur að gætt verði að lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga í hvívetna. Það er nokkuð skýrt, held ég, hjá Persónuvernd varðandi þetta mál. (JÞÓ: Þau þekkja samt ekki appið?)